Fjárfesting í nýsköpunarfyrirtækjum veiti skattaafslátt

Samtök atvinnulífsins leggja til að skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum verði tekinn upp. Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og forstjóri Stika, talaði fyrir tillögunni á fundi SA um skattamál þann 9. nóvember sl. en SI hafa lagt mikla áherslu á að tillagan verði að veruleika. Á fundi SA sagði Svana m.a. að til að Ísland geti verið samkeppnishæft á heimsvísu og búið við velsæld þurfi viðvarandi hagvöxt. Undirstaða þess sé fjölbreytt atvinnulíf sem byggi á þekkingu og hugviti sem skapi verðmæti til útflutnings. Nýsköpun og öflugt rannsóknar- og þróunarstarf sé nauðsynleg forsenda þess að fyrirtæki vaxi og dafni.

Tillögu SA er að finna í nýju riti SA, Ræktun eða rányrkja? sem má nálgast hér að neðan. Á fundi SA í Hörpu sagði Svana Samtök iðnaðarins vinna með stjórnvöldum við að koma í framkvæmd framtíðarsýn sem miði að því að bæta starfsskilyrði fyrirtækja í tækni- og hugverkaiðnaði.

Svana Helen Björnsdóttir

"Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja hafa sett fram tillögur um skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa sem standast leiðbeiningar ESA/ESB varðandi stuðning ríkja til að hvetja til áhættufjármögnunar í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Skattafslátturinn hvetur til aukinnar fjárfestingar í litlum og meðalstórum nýsköpunarfyrirtækjum sem er forsenda fyrir uppbyggingu þekkingar, verðmætasköpun, nýjum störfum og samkeppnishæfni Íslands.

Tilgangur tillögunnar er að auðvelda fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja með tvennum hætti:

-           Meira framboð af áhættufjármagni með því að veita fjárfestum skattaafslátt við hlutabréfa kaup, sem sagt hvati fyrir einstaklinga til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.

-           Minnka fjárþörf fyrirtækja með frestun á skattgreiðslu á launum sem greidd eru í formi hlutabréfa þar til að sala á hlutabréfum fer fram.

Lýsing á tillögu: 

1. Skattaðili, einstaklingur, hefur heimild til að draga kaupverð hlutabréfa frá skattskyldum tekjum, sama ár og greitt er fyrir hlutabréfin og næstu tvö ár þar á eftir. Hámarksfjárhæð er 5 milljónir króna á ári. Heimilt er að nota ónotaða heimild maka.

2. Fyrirtækin, sem fjárfest er í, þurfa að flokkast sem lítil fyrirtæki samkvæmt skilgreiningu ESB/ESA en hún felur í

sér að hámarksvelta eða stærð efnahagsreiknings sé 10 milljónir evra eða 50 starfsmenn. Krafist er að rannsóknar- og þróunarkostnaður, samkvæmt ársreikningi, sé a.m.k. 2,5% af rekstrarkostnaði eða tekjum (skv. skilgreiningu OECD á "medium high-tech companies"). Fyrirtækin skulu hljóta staðfestingu frá Rannís.

3. Meðalstór fyrirtæki (50-250 starfsmenn) geta einnig nýtt heimildina að fengnu sérstöku samþykki, sbr. kafla 5 í leiðbeiningum ESA. (Samþykki ESA er hugsanlega háð því að fyrirtæki noti meira en 7% af veltu í rannsóknir og þróunarkostnað skv. skilgreiningu OECD á "high-tech R&D companies" og færð rök fyrir þörfinni á áhættufjármagni í þessum fyrirtækjum).

4. Heildarfjárhæð opinbers stuðnings til fyrirtækis takmarkast af skuldbindingum Íslands skv. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, nú 2,5 milljónir evra á hvert fyrirtæki á ári.

5. Fyrirtæki hafi heimild til að greiða laun í formi hlutafjár með sömu takmörkunum og koma fram hér að framan. Einstaklingar greiði ekki tekjuskatt af launum sem greidd eru í formi hlutafjár."

Svana sagði á fundi SA að það hafi sýnt sig að ekki skorti hugmyndir á Íslandi. Það sem hafi aðallega hindrað góðar hugmyndir sé óstöðugleiki og lök starfsskilyrði.

"Ofangreindar tillögur höfða til afmarkaðs hóps fyrirtækja sem vinna að nýsköpun. Um er að ræða um 200 fyrirtæki með um 1.500 ársverk sem vinna að rannsóknum og þróun. Í fyrra frumvarpinu sem dregið var til baka 2010 var reiknað með fjárþörf að upphæð kr 350 milljónum á ári. Í núverandi tillögum er lagt til hærri skattaafsláttur fyrir hvern einstakling. Það getur leitt af sér hærri heildarfjárfestingu og þar með hærri skattaafslætti.

Gerum ráð fyrir að 50 fyrirtæki á ári fái inn nýtt hlutafé þar sem að fjárfestar geta nýtt sér þennan skattaafslátt. Hvert fyrirtæki tekur inn að meðaltali 30 milljónir, það gerir fjárfestingu að upphæð 1.500 milljónir eða kr 500 milljónir í eftirgjöf á skatti á ári. Hluti af þessum skattaafslætti kemur strax til baka í formi skatta á laun sem greidd eru í þessum sömu fyrirtækjum sem fjárfest er í.

Helsti ávinningurinn af tillögunni er betri samkeppnisstaða Íslands, þekkingaruppbygging og fjölbreyttara atvinnulíf.

Um er að ræða fjárfestingu ekki kostnað, fjárfest er í framtíðinni, verðmætasköpun og hagvexti framtíðinnar."

Glærur Svönu Helenar Björnsdóttur

Tengt efni:

SMELLTU HÉR TIL AÐ SÆKJA RIT SA UM SKATTAMÁL ATVINNULÍFSINS (PDF)

Skattarit SA 2012 - forsíða