Efnahagsmál - 

26. Oktober 2009

Fjárfesting í atvinnulífinu hrynur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjárfesting í atvinnulífinu hrynur

Aðstæður í efnahagslífinu eru nú slæmar eða mjög slæmar að mati 95% stjórnenda í stærstu fyrirtækjum landsins. Er þetta meðal niðurstaðna í ársfjórðungslegrar könnunar Capacent Gallup á stöðu og horfum hjá 500 stærstu fyrirtækja landsins, en könnunin var gerð í septembermánuði. Er mat stjórnenda á aðstæðum í efnahagslífinu að þessu sinni ámóta slæmt og fram hefur komið í hliðstæðum könnunum undanfarið ár. Mikill samdráttur fjárfestingar í atvinnulífinu endurspeglast með skýrum hætti í könnuninni. Útlit er fyrir að fjárfesting muni dragast saman um 20% að nafnvirði á næsta ári eða um 26% að raunvirði, en í þjóðhagsáætlun er hins vegar spáð rösklega 10% magnaukningu á næsta ári.

Aðstæður í efnahagslífinu eru nú slæmar eða mjög slæmar að mati 95% stjórnenda í stærstu fyrirtækjum landsins. Er þetta meðal niðurstaðna í ársfjórðungslegrar könnunar Capacent Gallup á stöðu og horfum hjá 500 stærstu fyrirtækja landsins, en könnunin var gerð í septembermánuði. Er mat stjórnenda á aðstæðum í efnahagslífinu að þessu sinni ámóta slæmt og fram hefur komið í hliðstæðum könnunum undanfarið ár. Mikill samdráttur fjárfestingar í atvinnulífinu endurspeglast með skýrum hætti í könnuninni. Útlit er fyrir að fjárfesting muni dragast saman um 20% að nafnvirði á næsta ári eða um 26% að raunvirði, en í þjóðhagsáætlun er hins vegar spáð rösklega 10% magnaukningu á næsta ári.

Þegar horft er sex mánuði fram í tímann kemur fram ívið jákvæðara mynd þar sem um fjórðungur stjórnenda býst við að aðstæður verði þá nokkuð betri. Þriðjungur þeirra telur engu að síður að aðstæður verði verri að sex mánuðum liðnum. Í heild er því ekki vænst umbóta á næstu sex mánuðum.  

Þegar stjórnendur reyna hins vegar að skyggnast 12 mánuði fram í tímann, eykst bjartsýnin. Telja um 62% þeirra að aðstæður verði þá nokkuð betri en aðeins um 22% að þær verði verri. Raunar er þetta áþekk niðurstaða og kom fram í samsvarandi könnunum fyrir 6 og 12 mánuðum síðan og lýsir e.t.v því að stjórnendur haldi í von um að aðstæður fari batnandi að ári liðnu þótt skýr merki um það skorti á næstu mánuðum.

Niðurstöður könnunarinnar um aðstæður í efnahagslífinu má draga saman í svonefnda vísitölu efnahagslífsins, en hún sýnir samandregið mat fyrirtækja á núverandi efnahagsaðstæðum. Sams konar vísitölur má reikna miðað við mat stjórnenda á horfum eftir sex og tólf mánuði. Til samanburðar eru á eftirfarandi mynd einnig sýndar niðurstöður um sama efni úr fyrri könnunum.

Vísitala efnahagslífsins - smelltu til að stækka
(Vísitalan er reiknuð þannig: [(# betri / (# betri + # verri)) * 200],
þar sem # = fjöldi fyrirtækja.)

Samkvæmt þessu eru aðstæður í efnahagslífinu nú taldar afleitar líkt og í könnunum undanfarið ár. Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður verri en hæst 200, þegar allir telja þær betri. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður betri og þeir sem telja þær verri.

Mat stjórnenda á aðstæðum á vinnumarkaði er sömuleiðis áþekkt því sem fram hefur komið í síðustu könnunum. Hjá 86% fyrirtækjanna er framboð vinnuafls nægjanlegt á móti því sem aðeins 14% fyrirtækjanna skortir vinnuafl og eru aðstæður að þessu leyti almennt svipaðar eftir atvinnugreinum. Athygli vekur þó að skortur er á vinnuafli hjá um 27% fyrirtækja í fjármála- og tryggingastarfsemi. Lýsir þetta e.t.v. þeim önnum sem þessi fyrirtæki verða fyrir vegna hruns og endurskipulagningar á fjármálakerfi þjóðarinnar.

Könnunin bendir til að á næstu sex mánuðum muni störfum í atvinnulífinu fækka enn frekar, þar sem um 25% fyrirtækja búast við að starfsmönnum muni fækka nokkuð eða mikið en aðeins um 19% að þeim muni fjölga. Um 58% fyrirtækja búast við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum. Er þessi niðurstaða ekki óáþekk því sem fram kom í könnun SA á atvinnuhorfum fyrirtækja fyrr í þessum mánuði , þar sem röskur fjórðungur fyrirtækja bjóst við að starfsmönnum myndi fækka á næstu sex mánuðum.

Innlend eftirspurn mun enn dragast saman á næstu sex mánuðum, en um 31% fyrirtækjanna telja að eftirspurn minnki nokkuð eða mikið á móti því sem um 24% búast við nokkurri aukningu. Á hinn bóginn bendir könnunin til þess að eftirspurn á útflutningsmörkuðum muni vaxa. Búast um 40% fyrirtækjanna við því að eftirspurn á erlendum mörkuðum vaxi, en aðeins um 5% vænta samdráttar. Um 11% fyrirtækja í sjávarútvegi búast að vísu við minnkandi eftirspurn, en aukningar er engu að síður vænst hjá um 37% fyrirtækja.

Lítilla breytinga er vænst á launum á næstu sex mánuðum. Tæpur fjórðungur fyrirtækja býst að vísu við hækkun og um 14% vænta lækkunar, en mikill meirihluti eða um 61% á ekki von á því að laun breytist. Fjárhæðir launabreytingar verða væntanlega almennt litlar, þar sem svör fyrirtækjanna sýna að á næstu sex mánuðum muni laun lækka að meðaltali um 0,3%, en miðað við miðgildi verða hins vegar engar launabreytingar (breyting 0,0%). Í könnuninni var einnig spurt um breytingar á launum milli áranna 2008 og 2009. Talið er að laun á árinu 2009 verði lægri en á árinu 2008 hjá um 34% fyrirtækjanna, óbreytt hjá um 37% þeirra en hærri hjá um 29%. Að meðaltali lækka laun um 2,2%. Sé miðað við miðgildi breytast laun hins vegar ekki milli ára.

Mikill samdráttur fjárfestingar í atvinnulífinu endurspeglast með skýrum hætti í könnuninni. Þegar spurt er um fjárfestingu á árinu 2009 miðað við árið 2008 hefur hún minnkað nokkuð (32%) eða mikið (42%) hjá um 74% fyrirtækjanna, en aukning aðeins orðið hjá um 6% þeirra. Í fjárhæðum er talið að fjárfestingarútgjöld muni lækka um 35% milli ára á verðlagi hvors árs, sem þýðir rösklega 40% samdráttur miðað við fast verðlag. Er þetta áþekk niðurstaða og fram kemur í þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins. Á hinn bóginn gefur könnunin einnig til kynna að fjárfesting muni dragast saman um 20% að nafnvirði á næsta ári eða um 26% að raunvirði, en í þjóðhagsáætlun er hins vegar spáð rösklega 10% magnaukningu á næsta ári.

Stjórnendur spá því að vísitala neysluverðs muni hækka um 3,3% á næstu 12 mánuðum og að stýrivextir Seðlabanka Íslands, sem nú eru 12%, verði komnir niður í 8,3% að ári liðnu.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 8. til 29. september 2009 og voru spurningar alls 32. Í upphaflegu úrtaki voru 500 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun), en í endanlegu úrtaki voru 445. Svarhlutfall var 57,1%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Sjá nánar:

Skýrsla Capacent Gallup um niðurstöðu könnunarinnar (PDF)

Umfjöllun um síðustu könnun Capacent Gallup á vef SA 

Könnun SA í október 2009 á atvinnuhorfum meðal aðildarfyrirtækja

Samtök atvinnulífsins