Ferðaþjónusta mikilvæg íslensku efnahagslífi

Stórstígar framfarir hafa orðið í íslenskri ferðaþjónustu þrátt fyrir erfið rekstarskilyrði sem greinin hefur þurft að búa við um langa hríð en nú eru tækifæri til að blása til sóknar. Þetta kom fram í máli Þórs Sigfússonar, formanns SA, á Ferðamálaþingi. Þar sagði hann SA vilja taka þátt í því að efla bæði stór og lítil fyrirtæki og hvetja til nýsköpunar innan þeirra. Fjölmargir möguleikar væru til að efla rekstur ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi sem gætu skilað góðri afkomu en ferðaþjónustan væri mikilvægur þáttur í þeirri uppbyggingu atvinnulífsins sem framundan er. Erlendir ferðamenn hafi t.d. flutt inn gjaldeyri fyrir um 85 milljarða króna á síðasta ári og greinin hafi aflað um 19% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.

Starfsumhverfi ferðaþjónustunnar verði bætt
Þór sagði í erindi sínu tímabært að sýna fram á mikilvægi greinarinnar með því að birta vandað talnaefni um umfang hennar eins og hafi t.d. verið gert í nýjum ferðaþjónustureikningum Hagstofunnar. Einnig að draga fram hversu mörg tækifæri eru innan greinarinnar en ýmislegt megi þó bæta.

Þór nefndi að það vanti stærri einingar í íslenska ferðaþjónustu sem stærri fjárfestar á borð við lífeyrissjóði myndu sjá sér hag að fjárfesta í. Mögulega megi setja á fót sjóð til að fjárfesta í arðvænlegum ferðaþjónustufyrirtækjum en einnig komi til álita að fyrirtækin skrái sig á hlutabréfamarkað - nú þurfi fyrirtæki síður að vera risavaxin til að vekja athygli í Kauphöllinni - þau þurfi aðeins að vera spennandi kostur með bjarta framtíð. Brýnt sé að fá erlenda fjárfesta að greininni með mikilvæg tengsl og kynna verði Ísland með kröftugum hætti erlendis líkt og gert var eftir hryðjuverkaárásirnar í New York 11. september 2001.

Stefnumótun hugsuð upp á nýtt
Íslensk stefna í ferðamálum hefur verið mörkuð til ársins 2015 og sagði Þór hana skýra en stefnuna megi endurhugsa eftir atburði síðustu mánaða eins og margt annað. Vísaði Þór til Nýja-Sjálands þar sem staða ferðaþjónustunnar er sterk en Ný-Sjálendingar hafa sett sér það markmið í langtímastefnumótun að ferðaþjónustan gegni lykilhlutverki í sjálfbæru efnahagslífi þjóðarinnar árið 2015. Ferðaþjónustan eigi að vera arðbær atvinnugrein og aðlaðandi fjárfestingarkostur. Þór undirstrikaði að markmiðum innan ferðaþjónustunnar verði ekki náð nema hún sé arðbær til framtíðar svo hægt sé að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar til að greinin haldi velli. Á þetta verði að leggja mikla áherslu á komandi árum.

Þór hvatti til þess Ferðamálaþingi að menn gleymdu sér ekki í sókninni framundan og allt fari í sama farið innan nokkurra ára. Íslenskt atvinnulíf þurfi á traustara umhverfi að halda og opinská umræða verði að fara fram um hvort íslensku atvinnulífi muni farnast betur með evru eða Bandaríkjadal í stað íslensku krónunnar og Ísland verði hluti af stærra efnahagssvæði.

Þór sagði nauðsynlegt sé að ná hér niður vöxtum og verðbólgu til að fyrirtæki geti gert raunhæfar áætlanir til nokkurra ára í senn - æskilegt væri að verðbólga væri ekki hærri en 3% og stýrivextir 4%. Takist það muni það hafa víðtæk áhrif á allt þjóðfélagið - bæði fólk og fyrirtæki og þar með muni þjóðinni gefast tækifæri til að fara úr fljótheitum yfir í fagmennsku á öllum sviðum.

Sjá nánar:

Erindi Þórs Sigfússonar á Ferðamálaþingi