Farsíminn hlaðinn með því að hrista flösku!

Úrslit í Snilldarlausnum Marel 2014, hugmyndasamkeppni framhaldsskólanna liggja nú fyrir. Keppnin þetta árið snérist um að auka virði flösku og útskýra hugmyndina með stuttu myndbandi.  Samtök atvinnulífsins veittu viðurkenningu þeirri hugmynd sem líklegust er til framleiðslu en hana áttu nemendur úr Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Þeir breyttu flösku í hleðslutæki en með því að tengja hana við síma með USB tengi og hrista er hreyfiorku breytt í raforku. Straumlausir símar fjarri rafkerfi landsins geta því öðlast líf á ný auk þess sem hleðslan styrkir vöðva líkamans um leið!

V-hleðsla er líkleg til framleiðsluLausn framhaldsskólans í Vestmannaeyjum heitir "V-hleðsla" og eflaust myndu margir vilja eiga slíka vöru í fórum sínum.

Arnar Sveinn Guðmundsson, Aron Máni Símonarson, Baldvin Búi Wernerson, Þórður Örn Stefánsson áttu lausnina. Þeir hlutu í verðlaun 50 þúsund krónur ásamt gjafakörfu frá Ölgerðinni. Þeir hlutu jafnframt verðlaun fyrir vinsælustu lausnina sem byggði á vefkosningu.

Horfðu á Snilldarlausn Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, ásamt verðlaunahöfum Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum.

Alls voru veitt verðlaun í fjórum flokkum en aðalverðlaunin Snilldarlausnina 2014 hlutu Garðar Ólafsson og Pálmi Sævarsson frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þeir hlutu farandgripinn "Skaparann", 100 þúsund krónur í reiðufé, iPad Mini frá iSímanum og gjafakörfu frá Ölgerðinni.

Lausnin heitir "Flöskubroddar" en það eru mannbroddar gerðir úr stórri plastflösku ásamt áltöppum af glerflöskum.

Horfðu á Snilldarlausn Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Besta myndbandið gerðu  Sólveig Ásta Einarsdóttir og Þórhildur Þorleiksdóttir frá Menntaskólanum í Reykjavík. Þær hlutu 50.000 kr. í reiðufé ásamt gjafakörfu frá Ölgerðinni.

Lausnin heitir "Skartgripir" og gengur út á að nota flösku til að koma skipulagi á skartgripasafnið.

Horfðu á Snilldarlausn Menntaskólans í Reykjavík

Snilldarlausnir Marel hófu göngu sína haustið 2009 í tengslum við Alþjóðlega athafnaviku eða Global Entrepreneurship Week sem er verkefni unnið í samstarfi yfir 130 þjóða um allan heim. Samtök atvinnulífsins hafa verið einn af bakhjörlum keppninnar frá upphafi.