Faraldur, skattar og dauði

Í dag taka nýjar sóttvarnaráðstafanir gildi með litlum fyrirvara. Þannig hefur þetta gengið frá upphafi faraldursins. Samtök atvinnulífsins kölluðu í síðustu viku eftir meiri fyrirsjáanleika í þessum aðgerðum. Spurt var hvort ekki væri hægt að setja langtímaáætlun um afléttingu takmarkana. Sum benda á að það sé ekki hægt því að það sé óvíst hvernig faraldurinn muni þróast. Það lýsir ákveðnum grundvallvarmisskilningi um eðli og tilgang áætlana.

Tilgangur áætlana er ekki að segja hvernig eitthvað verði, heldur frekar að segja að svona teljum við líklegast að þetta verði eða svona vonum við að þetta verði. Ef aðstæður breytast þá breytir fólk áætlunum. Þegar óvissa er sérstaklega mikil þá setur fólk upp sviðsmyndir.

Það er stundum sagt að það eina sem sé öruggt í tilverunni séu skattar og dauðinn. Vissan er þó ekki meiri en svo að við vitum að við deyjum og munum þurfa að borga skatta þangað til. En, það er fullkomin óvissa um það hvenær við deyjum og hversu háa skatta við munum þurfa að borga. Allt sem gerist í framtíðinni er því háð óvissu, meira að segja skattar og dauðinn.

Nú er meira en ár síðan fyrsta smitið í heiminum varð og tíu mánuðir síðan veiran barst til Íslands. Ríki heims, stofnanir og fyrirtæki hafa gert fjölda rannsókna og birt vísindagreinar. Á Íslandi hefur verið gert spálíkan um hvernig líklegast sé að faraldurinn þróist. Er óvissan enn svo mikil að ekki sé hægt að gera áætlanir lengur en nokkra daga fram í tímann?

Davíð Þorláksson er forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.