Fallist á undanþágu Íslands frá hvíldartíma ökumanna

Fastanefnd EFTA ríkjanna hefur samþykkt undanþágubeiðni Íslands frá reglum Evrópusambandsins um akstur og hvíld atvinnubílstjóra. Þar með er fallist á sérstöðu Íslands í samgöngumálum en vegakerfi landsins og aðstæður atvinnubílstjóra til hvíldar hér á landi eru mjög frábrugðnar því sem gerist á meginlandi Evrópu auk þess sem íslenskt veðurfar getur sett strik í reikninginn. Reglugerð Evrópusambandsins mun því verða innleidd hér á landi með meiri sveigjanleika en í öðrum ríkjum á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Með ákvörðun sinni hafnaði fastanefndin ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA sem hafði lagst gegn undanþágubeiðnunum.

Samgönguráðuneytið sendi undanþágubeiðni til ESA þann 14. apríl 2008. Í kjölfarið fól ESA sérfræðingum að leggja mat á beiðnina og kom skýrsla þeirra út í september 2008.  Í skýrslunni er lagt mat á hvort hætta væri á auknum umferðarslysum og hvort umferðaröryggi væri stefnt í hættu ef fallist yrði á undanþágubeiðnina.


Í mati sérfræðinganna er lögð áhersla á að atvinnubílstjórar í land- og fólksflutningum á Íslandi geti yfirleitt náð ákvörðunarstað á einum degi, ólíkt því sem gengur og gerist á meginlandi Evrópu. Veðurskilyrði og aðrar aðstæður á Íslandi, einkum að vetri til, leiði jafnframt til þess að ökumenn aki hægar en ella. Tímamörk reglugerðarinnar gætu því skapað streitu hjá íslenskum bílstjórum og jafnvel haft áhrif á umferðaröryggi. Sögðu þeir jafnframt að akstur á íslenskum vegum væri ekki eins einhæfur og yfirleitt á meginlandinu og því síður líklegt að syfja sæki á ökumenn á Íslandi.

Sérfræðingarnir mæltu því með að undanþágan yrði veitt en ESA taldi ekki rétt að fara að ráði þeirra. Fastanefnd EFTA ríkjanna komst hins vegar að annarri niðurstöðu og ákvað að samþykkja undanþágubeiðni Íslands frá reglum Evrópusambandsins um akstur og hvíld atvinnubílstjóra.

Sjá nánar á vef EFTA