Fagnar samráði um skattabreytingar

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar því í samtali við Ríkisútvarpið að stjórnvöld ætli að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins um lækkun tekjuskatts. Hann segir fordæmi fyrir því að ráðstafanir stjórnvalda hafi greitt fyrir kjarasamningum.

Ríkisútvarpið segir frá því hvernig fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa tekið fremur illa í þær skattalækkanir sem felast í nýjum stjórnarsáttmála, þar sem formaður BSRB varar við velferðarslysi og framkvæmdastjóri ASÍ segir óeðlilegt að stjórnarflokkarnir lýsi því yfir að kosningaloforðin verði rædd í tengslum við kjarasamninga án þess að kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar sé komin fram.

Ari Edwald segir ekki tímabært að tjá sig um skattalækkunaráformin án þess að þau liggi ljós fyrir. Það sé þó ljóst að ráðstafanir stjórnvalda geti greitt fyrir kjarasamningum. Fyrir því séu mörg fordæmi. Ari telur stóriðjuframkvæmdir ekki útiloka skattalækkanir. Þær séu eingöngu ein breyta af mörgum sem taka þurfi tillit til í hagstjórninni á næstu misserum.

Aðspurður játaði Ari því að hann undraðist neikvæðni verkalýðsforystunnar gagnvart þessum áformum.