Fá atvinnu- og dvalarleyfi með flýtimeðferð

Danska útlendingastofan sér um veitingu dvalar- og atvinnuleyfa fyrir fólk frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem ráðið er til vinnu hjá dönskum fyrirtækjum.  Hér á landi fara tvær stofnanir með þetta verkefni, Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun. Frá 1. júlí 2002 hefur í Danmörku verið í gildi sérstakt fyrirkomulag sem snýr að starfsgreinum þar sem skortur er á starfsfólki með tiltekna þekkingu. Listi yfir viðkomandi starfsgreinar er uppfærður reglulega, en nú er þar m.a. að finna verkfræðinga með ýmsa sérþekkingu, stærðfræðinga, lyfjafræðinga, líffræðinga, lækna og hjúkrunarfræðinga. Hafi einstaklingur frá ríki utan EES, með viðurkennd réttindi á umræddu sviði, gert ráðningarsamning við danskt fyrirtæki eða stofnun er honum veitt dvalar- og atvinnuleyfi með flýtimeðferð, án þess að málið sé sent til umsagnaraðila, enda séu umsamin starfskjör öll í samræmi við dönsk lög og reglur. Sjá nánar á heimasíðu dönsku útlendingastofunnar.

Flókið ferli hér
Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á hversu langt og flókið ferli það getur verið að fá hingað til lands starfsfólk frá löndum utan EES, og í leiðara 7. tölublaðs fréttabréfsins Af vettvangi var jafnframt fjallað um efnahagslega nauðsyn þess að greiða leið erlends starfsfólks hingað til lands í tengslum við stóriðjuframkvæmdir. Þarna gætu Íslendingar greinilega margt lært af Dönum, enda óþarfi að fara með mál í gegnum langt ferli þegar fyrir liggur að ekkert framboð sé á fólki úr viðkomandi starfsgrein innanlands. Vinnumálastofnun er t.d. heimilt að víkja frá skilyrði um að atvinnurekandi hafi leitað til svæðisvinnumiðlunar, ef slík leit er fyrirsjáanlega árangurslaus að mati stofnunarinnar.