Evrópusamtök atvinnulífsins vilja auka snerpu ESB

BUSINESSEUROPE, Evrópusamtök atvinnulífsins, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem bent er á nauðsyn þess að ESB og aðildarríki þess takist á við þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir á tímum hnattvæðingar og aukinnar alþjóðlegrar samkeppni. Evrópa verði að auka snerpu sína og samkeppnishæfni eigi álfan ekki að sitja eftir á tímum þar sem allt breytist á ógnarhraða. Hleypa verði nýju lífi í ESB svo hægt sé að blása til sóknar.

Grunnur að velmegun

Brýningarorð BUSINESSEUROPE, Evrópusamtaka atvinnulífsins, eru sett fram í í tilefni af 50 ára afmæli Rómarsáttmálans. Með honum var lagður grunnur að einu efnaðasta og stöðugasta svæði heims og segir í yfirlýsingunni að evrópskt atvinnulíf hafi alltaf stutt samstarf Evrópuþjóða vegna þess ávinnings sem þær hafi notið af því, s.s friðar, stöðugleika og innri markaðar, þar sem fólk getur farið um óhindrað og stundað frjáls viðskipti.

Áskoranir Evrópu

Evrópskt atvinnulíf og íbúar Evrópu standa hins vegar í dag frammi fyrir margs konar áskorunum. Samkeppni frá öðrum þjóðum og markaðssvæðum fer stöðugt vaxandi og við því verða Evrópubúar að bregðast að mati Evrópusamtaka atvinnulífsins. Því krefjast samtökin að skrifræði innan ESB verði minnkað og að Evrópusambandið geti brugðist skjótt við þegar þess gerist þörf. Jafnframt því beiti ESB sér fyrir því að aðildarríki sambandsins læri hvert af öðru og innleiði heima fyrir það sem vel hefur tekist í öðrum aðildarríkjum - með því móti geti Evrópa aftur náð vopnum sínum.

Leiðir til sóknar

Á vef BUSINESSEUROPE má sjá þær áherslur sem Evrópusamtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að ráðast í til að efla samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs, m.a. að halda áfram að skapa ný störf, efla innri markaðinn og berjast gegn verndarstefnu einstakra aðildarríkja. Jafnframt verði að grípa þau tækifæri sem hljótist af stækkun ESB því rannsóknir sýni að fjölgun aðildarríkja ESB í 25 hafi eflt hagvöxt og skapað ný störf -   bæði í nýju aðildarríkjunum og þeim gömlu. Þá sé mikilvægt að fjölga fólki á vinnumarkaði og fá það til að vinna lengur ásamt því að laga lífeyriskerfi Evrópubúa að nýjum aðstæðum vegna breyttrar aldurssamsetningar Evrópuþjóða en eldri borgurum í álfunni hefur fjölgað mjög hratt á meðan ungu fólki á vinnumarkaði hefur fækkað.

Sjá nánar á vef BUSINESSEUROPE.