Efnahagsmál - 

08. desember 2008

Evrópusamtök atvinnulífsins hvetja ESB til að efla atvinnulíf

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Evrópusamtök atvinnulífsins hvetja ESB til að efla atvinnulíf

Forsetar og formenn aðildarsamtaka BUSINESSEUROPE (Evrópusamtaka atvinnulífsins) hittust á fundi í París föstudaginn 5. desember og ræddu m.a. um efnahagsástandið við Sarkozy, forseta Frakklands og Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Þór Sigfússon, formaður SA, ávarpaði fundinn og tók undir þá skoðun fundarmanna að mikilvægt væri að varast verndarstefnu í lengstu lög þar sem frjáls markaður sé undirstaða hagsældar. Forseti BUSINESSEUROPE hefur sent Sarkozy og Barroso bréf þar sem samtökin hvetja til þess að leiðtogaráð ESB taki réttar ákvarðanir á fundi sínum í lok vikunnar svo flýta megi endurreisn atvinnulífsins við þær erfiðu aðstæður sem nú ríki.

Forsetar og formenn aðildarsamtaka BUSINESSEUROPE (Evrópusamtaka atvinnulífsins) hittust á fundi í París föstudaginn 5. desember og ræddu m.a. um efnahagsástandið við Sarkozy, forseta Frakklands og Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Þór Sigfússon, formaður SA, ávarpaði fundinn og tók undir þá skoðun fundarmanna að mikilvægt væri að varast verndarstefnu í lengstu lög þar sem frjáls markaður sé undirstaða hagsældar. Forseti BUSINESSEUROPE hefur sent Sarkozy og Barroso bréf þar sem samtökin hvetja til þess að leiðtogaráð ESB taki réttar ákvarðanir á fundi sínum í lok vikunnar svo flýta megi endurreisn atvinnulífsins við þær erfiðu aðstæður sem nú ríki.

Bréfið má nálgast í heild sinni hér að neðan en þar ræðir Ernest-Antoine Seilliére, forseti BUSINESSEUROPE, m.a. um þær efnahagsaðgerðir sem framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til að ráðist verði í, aðgang fyrirtækja að fjármagni, niðurfellingu viðskiptahindrana og um orku- og loftslagsmál.

Í bréfi BUSINESSEUROPE er m.a. lögð áhersla á eftirfarandi þætti:

  • Ráðist verði strax í þær 200 milljarða evra efnahagsaðgerðir sem framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til. Mikilvægt sé að auka fjárfestingar í innviðum aðildarríkja ESB og ráðast í framkvæmdir þar sem opinberir aðilar og einkaaðilar vinni saman (Public-Private Partnerships).

  • BUSINESSEUROPE hvetur einstaka þjóðir til að verja að lágmarki 1,2% af þjóðarframleiðslu sinni til að örva efnahagslífið heimafyrir. Aðstoða verði þær þjóðir sem glími við mikla fjárhagslega örðugleika.

  • Tryggja verði fyrirtækjum aðgang að fjármagni á viðráðanlegum kjörum til að flýta fyrir því að efnahagslífið nái sér sem fyrst á strik aftur. Finna verði leiðir til að viðskiptabankar geti sinnt lánastarfsemi til fyrirtækja ásamt annarri nauðsynlegri fjármálaþjónustu.

  • Hrinda verði regluverki um lítil og meðalstór fyrirtæki í framkvæmd (Small Business Act), en umræddar reglur eru mjög mikilvægur þáttur í því að ryðja úr vegi hindrunum sem standa í vegi fyrir vexti lítill fyrirtækja.

  • Aðgerðir í umhverfismálum- og loftslagsmálum verði ekki til þess að draga úr samkeppnishæfni Evrópu. Bent er á að orkunýting evrópska fyrirtækja er nú 24% betri en hún var 1997 og atvinnulífið hafi samþykkt að bæta árangur sinn enn frekar.

  • Aðildarfélög BUSINESSEUROPE óttast að verði útstreymistilskipun ESB innleidd án þess að alþjóðlegt samkomulag náist um takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda muni evrópsk stóriðjufyrirtæki verða undir í alþjóðlegri samkeppni en iðnfyrirtæki séu mjög mikilvæg í þeirri endurreisn sem framundan er.

Forseti BUSINESSEUROPE segist sannfærður um að leiðtogaráð ESB bregðist við á réttan hátt við þeirri efnahagskrísu sem nú ríki og eigi sér ekki fordæmi. Fundur leiðtogaráðsins þann 11. og 12. desember næstkomandi og þær ákvarðanir sem þar verði teknar muni hafa mikil áhrif á efnahagslega framtíð ESB.

Í umræðum á fundi formanna og forseta aðildarfyrirtækja BUSINESSEUROPE í París þakkaði Þór Sigfússon þeim þjóðum sem stutt hafa Ísland á liðnum vikum. Ljóst væri að huga þyrfti sérstaklega að félagslegum þáttum kreppunnar og þeim áhrifum sem hún gæti haft. SA hafi unnið náið með ASÍ við að bregðast við afleiðingum kreppunnar.

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru aðilar að BUSINESSEUROPE sem er málsvari yfir 20 milljón fyrirtækja í 34 löndum.

Sjá nánar:

Bréf BUSINESSEUROPE til Sarkozy og Barroso (PDF)

Vefur BUISNESSEUROPE

Um leiðtogaráð ESB á vef Fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg:

Allt að fjórum sinnum á ári funda forsetar og/eða forsætisráðherrar aðildarríkjanna með formanni framkvæmdastjórnar ESB í leiðtogaráðinu. Leiðtogaráðið mótar pólitíska stefnu ESB og er drifkrafturinn í samstarfinu. Leiðtogaráðið hefur ekki löggjafarvald en tekur ákvarðanir í mikilvægustu pólitísku málunum og þar sem viðkomandi ráðherrahópur hefur ekki náð samstöðu.

Samtök atvinnulífsins