„Evra – hvað gerist 1. janúar 2002?“

Búnaðarbankinn, Íslandsbanki, Landsbankinn og sparisjóðirnir hafa í samvinnu við Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) gefið út bæklinginn "Evra - hvað gerist 1. janúar 2002?"

 

Þar sem gjaldmiðlar tólf Evrópuríkja munu leggjast af um áramótin og hinn nýi gjaldmiðill evra koma í staðinn er ljóst að breytingin mun snerta almenning og fyrirtæki á Íslandi á ýmsa vegu, að því er segir í fréttatilkynningu frá SBV. Sem dæmi er tekið að líklegt sé að heildarfjárhæð seðla sem hér finnist í gömlu myntunum sé veruleg.

 

Í bæklingnum er að finna svör við ýmsum spurningum sem brenna á fyrirtækjum og einstaklingum vegna tilkomu evrunnar 1. janúar 2002. M.a. er farið yfir hvernig farið verði með lán gefin hafa verið út í gömlu myntunum og hvað gera eigi við peningaseðla sem aðilar eiga í þeim myntum. Sérstaklega er farið yfir að hverju fyrirtæki þurfi að huga vegna upptöku evrunnar. Bæklingurinn mun liggja frammi í öllum útibúum banka og sparisjóða.