ESB - þríhliða samráð
Á dögunum var haldinn fyrsti formlegi fundur fulltrúa aðila vinnumarkaðarins á Evrópuvettvangi með forseta ráðherraráðsins og æðstu embættismönnum ESB. Á undanförnum árum hafa verið haldnir óformlegir fundir þessara aðila fyrir vorfundi leiðtoga Evrópusambandsins. Fundinn sátu Konstantinos Simitis, forsætisráðherra Grikklands, sem nú fer með formennsku í ráðherraráði ESB, Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar ESB og Anna Diamantopoulou, framkvæmdastjóri vinnumarkaðs- og félagsmála. Jafnframt sátu fundinn fulltrúar Ítalíu og Írlands sem viðtakandi formennskuríki ráðherraráðsins. Af hálfu vinnumarkaðarins sátu fundinn George Jacobs, forseti UNICE, og Fritz Verzetnitsch, forseti ETUC ásamt fylgdarliði og fulltrúum annarra samtaka.
Áhersla á Lissabon markmiðin
Í niðurstöðum fundarins er lögð áhersla á mikilvægi þess að
svonefndum "Lissabon markmiðum" - um að ESB verði samkeppnishæfasta
hagkerfi veraldar árið 2010 - verði náð en viðurkennt að ferillinn
fari hægt af stað. Romano Prodi undirstrikaði mikilvægi aukins
sveigjanleika á vinnumörkuðum innan ESB samhliða meiri hreyfanleika
vinnuafls og frekari jöfnuði, t.d. í lífeyrisréttindum. Prodi
hvatti aðila vinnumarkaðarins til að leggja sitt af mörkum til að
ná Lissabon markmiðunum.
George Jacobs, forseti UNICE benti á að Lissabon ferillinn væri varðaður sviknum loforðum, atvinnulífið krefðist umsvifalausra efnda. Hann sagði að Evrópa gæti ekki kennt neinum nema sjálfri sér um þá niðursveiflu sem einkennt hefur efnahagslífið. Jacobs kvaðst þeirrar skoðunar að auknum sveigjanleika á vinnumörkuðum yrði að ná innan sérhvers aðildarríkis, það yrði ekki gert með aðgerðum á Evrópuvettvangi. "ESB dregst jafnt og þétt aftur úr Bandaríkjunum," sagði Jacobs, "við verðum að styrkja frumkvöðlastarf og almennt fjölgun atvinnutækifæra."
Sjá fréttatilkynningu á heimasíðu UNICE
Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru aðilar að UNICE.