ESA samþykkir byggðaaðstoðarsvæði á Íslandi

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti þann 6. desember síðastliðinn tillögu íslenskra stjórnvalda um það hvaða landssvæði hér á landi geta notið fjárfestingarstyrkja til byggðaþróunar á árunum 2007 til 2013. Eru svæðin skilgreind með hliðsjón af nýjum reglum um byggðaaðstoð sem ESA samþykkti fyrr á árinu.

Samkvæmt ákvörðuninni er skilgreining svæðanna tvískipt. Annars vegar er fyrirkomulag sem gildir aðeins fyrir árið 2007 og felur í sér að landsbyggðin utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja teljist uppfylla skilyrði um byggðaþróunaraðstoð vegna dreifbýlis, þ.e. minna en 12,5 íbúar á hver ferkílómetra. Á þessu svæði búa um 31,4% þjóðarinnar.

Frá árinu 2008 tekur gildi ný flokkun svæða sem staðfest hefur verið af hagstofu Evrópusambandsins (EUROSTAT), en hún tekur mið af núverandi kjördæmaskipan. Á grundvelli þeirrar flokkunar samþykkti ESA, einnig með hliðsjón af reglu um dreifbýli, að byggðaþróunarsvæðið yrði stærra fyrir árin 2008-2013 og næði til landsins alls utan Reykjavíkurkjördæmanna og suðvesturkjördæmis. Í þessu felst m.a. að frá árinu 2008 verður byggðaaðstoð heimil til fyrirtækja sem staðsett eru á Suðurnesjum. Á þessu svæði búa um 37,5% þjóðarinnar.

Ákvörðunin felur einnig í sér takmörkun á fjárhæð ríkisaðstoðar sem hlutfalls af styrkhæfum kostnaði. Geta styrkir til stórra fyrirtækja numið að hámarki 15% af fjárfestingarkostnaði, en 10% hækkun er heimil þegar um meðalstór fyrirtæki er að ræða og 20% vegna lítilla fyrirtækja.

Tekið skal fram að umrædd ákvörðun ESA felur ekki í sér sjálfstæða heimild til að veita byggðaaðstoð heldur aðeins staðfestingu á almennu fyrirkomulagi slíkrar aðstoðar hér á landi. Vilji íslensk stjórnvöld nýta sér þetta fyrirkomulag, þurfa þau að tilkynna um aðstoðarkerfi eða stuðning við einstök verkefni í hverju tilviki.

Fréttatilkynningu um ákvörðun ESA má lesa með því að smella hér.