Eru til karla- og kvennastörf?

Atvinnuvegaráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð standa fyrir morgunfundi um jafnréttismál í fyrramálið, fimmtudaginn 28. maí kl. 8.30 - 10 á Nauthóli.  „Eru til karla- og kvennastörf?“ er yfirskrift fundarins en þar verður rætt hvernig fyrirtæki hafa náð að brjótast út úr hefðbundinni kynjaskiptingu starfa. Vinnumarkaðurinn er enn mjög kynskiptur en þróunin hefur verið jákvæð undanfarin ár.

Fundurinn er ætlaður stjórnendum og öðrum sem áhuga hafa á auknu jafnrétti í íslensku viðskiptalífi. Á fundinum segja stjórnendur tveggja fyrirtækja, Rio Tinto Alcan og Orkuveitu Reykjavíkur, frá því hvernig unnið er að jafnrétti í þeirra fyrirtækjum og hvaða leiðir eru færar til að jafna kynjahlutföll.  Þá flytur Sigurður Snævarr, hagfræðingur, erindi um niðurstöður nýrrar rannsóknar um kynbundinn launamun. 

Hvatningarverðlaun jafnréttismála
Á fundinum veitir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra,  Hvatningarverðlaun jafnréttismála í annað sinn. Markmiðið með hvatningarverðlaununum er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Á síðasta ári féllu verðlaunin í skaut Rio Tinto Alcan en þá voru þau veitt í fyrsta sinn.

Smelltu hér til að skrá þig