Erlendir aðilar komi að rekstri íslenskra banka

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við fréttastofu RÚV nauðsynlegt að erlendir aðilar komi að rekstri íslensku bankanna svo hægt verði að tryggja aðgang að erlendu lánsfé. Íslenska ríkið muni hafa mjög takmarkaðan eða jafnvel engan aðgang að lánsfé á almennum mörkuðum næstu árin og því mikilvægt að bankarnir komist í eigu erlendra kröfuhafa.

Rætt var við Vilhjálm vegna frétta um að mögulega verði Kaupþing selt kröfuhöfum bankans. "Þetta er það besta sem getur komið fyrir í þessari stöðu. Við höfum talað um það hér í Samtökum atvinnulífsins að það væri nauðsynlegt að bankarnir kæmust í eigu erlendra kröfuhafa. Þannig að það yrði áfram opinn aðgangur að erlendu lánsfé," sagði Vilhjálmur.

Vilhjálmur sagði ennfremur að sala Kaupþings myndi auka líkurnar á því að það tækist að bjarga lánasöfnum í eigu gamla Kaupþings svo að ekki þurfi að afskrifa þau í gegnum gjaldþrot. "Það er algjörlega nauðsynlegt að það sé flæði af fjármagni inn í landið á móti vöxtum og afborgunum af erlendum lánum.

Vilhjálmur telur að langbesta leiðin til að tryggja stöðu viðskiptavina bankanna sé sú að erlendir kröfuhafar og helst stórir bankar í þeirra hópi eignist íslensku bankana.

Sjá nánar frétt RÚV 20. febrúar 2009