Erlendar eignir: 300 - 400 milljarða vanmat Seðlabanka

Samkvæmt nýútkomnum tölum Seðlabankans virðast íslenskir fjárfestar hafa orðið fyrir meiri háttar hremmingum ár eftir ár í fjárfestingum sínum erlendis en haldið samt ótrauðir áfram fjárfesta og tapa fjármunum. Skuldir þjóðarinnar eru samkvæmt bankanum um 1354 milljarðar króna umfram eignir eða 119,5% af vergri landsframleiðslu. Slík skuldastaða er ógnvænleg og því er það merkilegt að í atvinnulífi landsmanna skuli lítið heyrast um varnaðarorð. Ástæðan er eflaust sú að það umhverfi sem birtist í hagtölum Seðlabankans er afar framandi flestum sem starfa í atvinnulífinu og fylgjast með gangi þess.

Fjárfestingar Íslendinga erlendis

Samkvæmt nýútkomnum tölum Seðlabankans var eigið fé Íslendinga vegna beinna fjárfestinga erlendis 755 milljarðar og útistandandi lán til tengdra félaga 173 milljarðar um áramótin eða samtals 928 milljarðar. Þessar eignir hafa fyrst og fremst myndast með fjárfestingum á síðustu 4 árum því að í árslok 2002 námu þær um 100 milljörðum króna.

En hvernig skráir Seðlabankinn sögu og afdrif þessara fjárfestinga í hagtölum sínum? Ef fjárfestingar á árunum 2003 - 2006 eru lagðar saman og eignum í árslok 2002 bætt við kemur út að uppsöfnuð eign ætti að vera vel yfir 1100 milljarða króna. En samkvæmt Seðlabankanum hefur kvarnast verulega úr henni og hún er aðeins 928 milljarðar. Hér munar tæpum 200 milljörðum sem að mati bankans hafa tapast.

Enginn frétt af tapi

Vandamálið er að það hefur enginn frétt af þessu mikla tapi sem er um 17% af því fé sem fjárfest hefur verið. Þvert á móti hafa allar fréttir gengið í þá átt að fjárfestingar Íslendinga hafi yfirleitt gengið vel og í mörgum tilvikum stórkostlega vel. Það er því ekki að undra að íslenskir fjárfestar á erlendum mörkuðum og atvinnulífið almennt skynji ekki þann veruleika sem Seðlabankinn telur að þjóðin búi við.

Sé reynt líka að meta verðmæti þessara eigna með því að skoða stöðuna í því ljósi að þær hafi ekki tapast heldur eitthvað ávaxtast kemur í ljós að það þarf ekki að hafa orðið nein gífurleg ávöxtun eða á bilinu 10% - 15% á ári til þess að staðan verði 300 - 400 milljörðum króna betri en Seðlabankinn gerir ráð fyrir. Þarna getur skeikað tölu sem er á bilinu 25% - 35% af vergri landsframleiðslu.  

Gagnger bragarbót nauðsynleg

Íslenskt efnahagslíf hefur tekið örum framförum á síðustu árum og með mikilli útþenslu fjármálageirans hafa allar tölur um viðskipti þjóðarinnar við útlönd og stöðu hennar gjörbreyst. Liðir sem áður voru nokkuð vel þekktir og hreyfðust lítið milli ára taka nú stökkbreytingum frá ári til árs. Því er Seðlabankanum nokkur vorkunn að halda utan um allar breytingar á talnaefninu. Það breytir því þó ekki að það þarf að hafa alla fyrirvara á gæðum talnanna ekki síst þegar mikilvægar ákvarðanir sem snerta allt þjóðarbúið eru teknar á grundvelli þeirra.

Rétt skynjun á stöðunni skiptir ekki síst máli þar sem erlendar stofnanir og greiningaraðilar leggja mat á styrk og veikleika íslensks efnahagslífs út frá þeim talnagrunni sem Seðlabankinn vinnur. Það er nauðsynlegt að fram fari gagnger bragarbót á talnagrunninum áður en það verður almenn skoðun út um heim að Ísland sé að fara á hausinn á meðan efnahagslífið stendur í raun sterkari fótum en nokkru sinni fyrr.