Erindi um „írsku leiðina“ á aðalfundi SA 15. maí
Á aðalfundi SA mun Turlough O'Sullivan, framkvæmdastjóri írsku atvinnurekendasamtakanna, fjalla um hina svonefndu "írsku leið". Almenn áhersla írskra stjórnvalda á samkeppnishæf starfsskilyrði fyrirtækja, m.a. lágir fyrirtækjaskattar, hafa ásamt gríðarlegum hagvexti vakið mikla athygli undanfarin ár, enda Írland orðið að miðstöð hátækniiðnaðar í Evrópu.
Dagskrá aðalfundarins verður nánar kynnt síðar, en þar verða m.a. kynntar Áherslur atvinnulífsins, stefnumörkun SA í átta málaflokkum sem varða samkeppnishæf starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja, m.a. í skattamálum. Undanfarna mánuði hafa á annað hundrað einstaklinga frá aðildarfélögum SA og einstökum fyrirtækjum lagt drög að þessari stefnumótun stjórnar SA.
Aðalfundurinn verður haldinn á Grand Hotel Reykjavík og hefst opin dagskrá kl. 13:30 undir yfirskriftinni "Ísland í fremstu röð." Fundur fulltrúaráðs hefst kl. 10:45 og venjuleg aðalfundarstörf kl. 11:00.
Kjör formanns.
Samkvæmt samþykktum Samtaka atvinnulífsins skal formaður
samtakanna kosinn árlega í beinni óbundinni póstkosningu allra
aðildarfyrirtækja. Atkvæði í formannskjöri verða talin á aðalfundi
og úrslit tilkynnt þar. Hver félagsmaður hefur atkvæði í hlutfalli
við greidd félagsgjöld ársins 2000. Kjörgögn verða send út
innan tíðar.
Kjör stjórnar.
Stjórn SA skipa formaður samtakanna, sem jafnframt er
formaður stjórnar, og 20 menn sem kjörnir eru árlega á fundi
fulltrúaráðs sem haldinn skal í tengslum við aðalfund
samtakanna.
Samkvæmt samþykktum SA skal kjörstjórn með áskorun til félagsmanna leita eftir tillögum um menn til setu í stjórn samtakanna fyrir komandi kjörtímabil. Hún skal leggja fram tillögur sínar um skipan stjórnar minnst tveimur vikum fyrir upphaf aðalfundar og skulu þær liggja frammi á skrifstofu samtakanna. Framboðsfrestur rennur út tveimur sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar. Bréf kjörstjórnar verður sent félagsmönnum innan tíðar.
Komi fram tillögur um fleiri menn en kjósa á skal kosið milli þeirra á fundi fulltrúaráðs SA.
Kjörgengir til formanns og til setu í stjórn SA eru stjórnendur og stjórnarmenn aðildarfyrirtækja og aðildarfélaga samtakanna.
Tilnefningar í fulltrúaráð.
Fulltrúaráð SA skipa 100 manns. Þar sem engin
aðildarfyrirtæki tilkynntu um beina tilnefningu í fulltrúaráð
samkvæmt 22. grein samþykkta SA falla öll atkvæði til hlutaðeigandi
aðildarfélags, en þau tilnefna í fulltrúaráðið samkvæmt atkvæðavægi
sem hér segir:
Landssamband íslenskra
útvegsmanna
12
Samtök atvinnurekenda í raf- og
tölvuiðnaði 2
Samtök
ferðaþjónustunnar
10
Samtök
fiskvinnslustöðva
9
Samtök
fjármálafyrirtækja
11
Samtök
iðnaðarins
32
SVÞ-Samtök verslunar og
þjónustu
24