Erindi forsætisráðherra á aðalfundi SA

"Bankarnir, útflutningsfyrirtækin og atvinnu- og viðskiptalífið eru ómissandi hlekkir í þeirri endurreisn sem framundan er og það eru okkar öflugu lífeyrissjóðir líka." Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á aðalfundi SA . Jóhanna sagðist taka undir yfirskrift fundarins, Atvinnulífið skapar störfin, og lýsti því yfir að hún væri tilbúin í samstarf við atvinnulífið um sköpun starfa sem flest verði til á hinum almenna markaði.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra

Erindi Jóhönnu má nálgast hér

Í erindi sínu lagði Jóhanna áherslu á að samkeppnishæfni þjóðarinnar yrði efld og hagrætt yrði í ríkisrekstrinum:

"Ég vil sameina ráðuneyti efnahagsmála, ég vil sameina ráðuneyti atvinnumála og stórefla nýsköpun og efla rannsóknir og vísindi í samfélaginu. Ég vil að stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og vísindasamfélagið á Íslandi móti stefnu um samkeppnishæfni Íslands árið 2020.

Óhófleg skriffinnska, vanþróuð eftirlitskerfi og pólitísk afskipti af stjórnun og mönnun fyrirtækja hamla samkeppnisfærni. Þjóðir með einfalt, gagnsætt skattakerfi, lágmarks skriffinsku og vandaða stjórnsýsluhætti hafa því gott forskot. Ég vil að við eflum samkeppnishæfni Íslands í alþjóðasamfélaginu og tryggjum varanlega verðmætasköpun og hagsæld til frambúðar," sagði Jóhanna.