Erindi Ásbjörns Gíslasonar á aðalfundi SA

Lykilforsenda endurreisnar samfélagsins er að Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfingin og stjórnvöld komi á þjóðarsátt á ný.  Tryggja verður frjóan farveg fyrir atvinnustarfsemi í landinu og stíga raunhæf skref í átt að stöðugleika og að viðskipti og atvinnustarfsemi blómstri á ný. Þetta sagði Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa á aðalfundi SA. Hann Samskip hafa þurft að draga saman í rekstri, eins og önnur félög. Fyrirtækið muni hefja að ráða fólk í vinnu um leið og hjólin fara að snúast aftur - tugi starfa - um land allt. 

Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa.

 Erindi Ásbjörns má lesa hér að neðan:

- Breyttir tímar -

 • Við stöndum sannarlega á tímamótum, eftir hið mikla kerfishrun og gríðarlega samdrátt í eftirspurn, ekki einungis hér á Íslandi, heldur um allan heim.

 • Við blasir allt annar veruleiki en við lifðum í hér fyrir nokkrum mánuðum.

 • Þetta eru erfiðir tímar en nú þurfum við að bretta upp ermar - og skapa bjarta framtíð fyrir okkur.

 • Lykilforsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu velferðarsamfélags okkar er að okkur takist að byggja upp fjölbreytt, öflugt og arðbært atvinnulíf.

Það er margt sem þarf að gera, bæði til skemmri og lengri tíma, en það helsta er þetta:

Bankarnir verða að komast af stað, það þarf að vinna hratt að þeirri uppstokkun sem og þeirri endurskipulagningu fyrirtækja og atvinnugreina sem nú blasir við.

 • Tryggja þarf skýrar leikreglur þegar bankar taka yfir gjaldþrota félög og hefja samkeppni við fyrirtæki í einkaeigu.

 • Það þarf að sjálfsögðu að lækka vexti, og það hressilega, hið allra fyrsta.

 • Við verðum að koma okkur út úr gjaldeyrishöftunum. Gott dæmi um sókndjarfa  lausn á því stóra vandamáli sem krónubréfin eru, er hugmynd Norðuráls um samninga við erlenda krónueigendur. - Þar er verið að snúa vandamáli í tækifæri - við þurfum fleiri slíkar hugmyndir!

Fjármagn mun alltaf leita þangað sem ríkir stöðuleiki og ekki síður áreiðanleiki - hvorki núverandi gjaldeyrishömlur né fyrirhugaðar skattahækkanir á fjármagn eru til góðs. Atvinnulífið og fyrirtækin í landinu munu ekki ná að reisa sig við án fjármagns. Það verður að vera hvati til fjárfestinga - ekki letjandi umgjörð. Við verðum að laða erlent fjármagn inn í landið.

Stóra áskorunin felst svo í því að móta hvar við ætlum sem þjóð að staðsetja okkur í alþjóðasamfélaginu. Krónan er rúin öllu trausti, bæði hér innanlands sem og erlendis, og henni verður varla bjargað úr þessu. Það, að reyna að blása lífi í hana, mun gera alla uppbyggingu efnahagslífsins hér enn erfiðari.

Við erum ekki eina þjóðin sem glímir við gjaldeyriskrísu þessa dagana. Það eru verulegar líkur á því að mörg lönd munu á næstu misserum gefa upp eigin þjóðarmynt og taka upp leiðandi myntir, þ.e. evru eða dollar.

Það þarf að nást sátt um endurreisn samfélagsins á breiðum grundvelli. Lykilforsenda er að Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfingin og ríkisvaldið komi á þjóðarsátt á ný. Við í atvinnulífinu treystum á ykkur, forystuna í Samtökum atvinnulífsins, að leiða þessa vinnu á farsælar brautir þar sem tryggður verður frjór farvegur fyrir atvinnustarfsemi í landinu og stigin verði raunhæf skref í þá átt að stöðugleiki náist og viðskipti og atvinnustarfsemi blómstri á ný!

Þegar búið er að ná stöðugleika og trúverðugleika á peningamálastefnu þjóðarinnar, þá hefst uppbyggingin - skemmtilega tímabilið.

Atvinnulífið mun skapa störfin - hagvöxtur mun aukast að nýju. Við þær aðstæður, þá aukast umsvif í samfélagi, fyrirtæki fara að dafna betur, þor eykst og þau fara í frekari fjárfestingar.  Við slíkar aðstæður skapast störfin. 

 • Við hjá Samskipum höfum þurft að draga saman í rekstri, eins og önnur félög, við munum hefja að ráða fólk í vinnu um leið og hjólin fara að snúast aftur - tugi starfa - um land allt.  Sama mun gerast í öðrum fyrirtækjum.

 • Við heyrum í Þórði Magnússyni og Eyrismönnum hvernig þeir telja að hægt sé að færa stærra hlutfall starfsemi Össurar og Marel til Íslands.  Við verðum að skapa umgjörð fyrir þessi félög á Íslandi - félög á borð við Össur, Marel, CCP, Actavis ofl.

 • Og þau eru enn mörg félögin, sem við íslendingar eigum sem eru að gera mjög góða hluti á erlendri grundu, þó útrásarævintýrið hafi farið illa, við þurfum og munum endurbyggja traust okkar á erlendri grundu.

Niðurstaða - í grunnin segi ég:

 1. Skapið umgjörðina fyrir atvinnulífið - stöðugleikann.

 2. Þá mun atvinnulífið skapa á ábyrgan máta störfin.