Er launakostnaður vanmetinn áhrifaþáttur verðbólgu?

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands sem birtar voru í morgun hefur vísitala launa hækkað um nær 11% frá því í febrúar 2020, þegar faraldur kórónuveiru hófst. Á sama tímabili hefur kaupmáttur launa aukist um 6%. Enn mælist verulegur samdráttur í hagkerfinu og atvinnuleysi er í sögulegum hæðum.  

Verðbólga stendur nú í 4,3%, sem er talsvert yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, en spár gera ráð fyrir að hún hjaðni tiltölulega skjótt aftur í markmið eftir því sem áhrif gengisveikingar krónunnar fjara út og gengisstyrking fer að vega á móti. Seðlabankastjóri hefur þó varað við því að ef sú verði ekki þróunin, og verðbólga verður þrálát, muni Seðlabankinn neyðast til að grípa til aðgerða – þ.e. stýrivaxtahækkana. 

Launakostnaður helsti áhrifaþáttur verðhækkana 

Þó að gengisþróunin hafi oft verið nefnd í tengslum við verðbólguna að undanförnu er ekki víst að hún muni hafa mestu áhrifin á þróun verðlags á næstu misserum. Eins og fram kemur í niðurstöðum könnunar Gallup hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins er aðfangaverð, þar með talið gengi, nefnt sem annar stærsti áhrifaþáttur til hækkunar verðlags. Sá þáttur sem mestu máli skiptir samkvæmt atvinnurekendum er launakostnaður, sem hefur hækkað verulega að undanförnu þrátt fyrir slæmt efnahagsástand og sögulega mikið atvinnuleysi. Þá munu stytting vinnuvikunnar og dýr vaktaálög vera viðbótar úrlausnarefni fyrir almenna vinnumarkaðinn sem og hið opinbera. 

Atvinnuleysi gæti orðið stór og viðvarandi vandi 

Í mars síðastliðnum voru 21 þúsund manns án atvinnu samkvæmt Vinnumálastofnun. Hefur atvinnulausum því fjölgað um rúm 11 þúsund frá því faraldur kórónuveiru hófst hér á landi, að viðbættum þeim fjögur þúsund sem nú eru á hlutabótum. Stór hluti þess atvinnuleysis sem skapast hefur í kjölfar faraldursins er í ferðaþjónustu en atvinnuleysi hefur aukist þvert á atvinnugreinar á hinum almenna vinnumarkaði. Spár gera nú ráð fyrir að mikið atvinnuleysi verði viðvarandi. Kjarabætur þeirra sem haldið hafa vinnunni undanfarið ár eru umtalsverðar en hafa e.t.v. kostað meira atvinnuleysi en ella. 

Eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á í nýbirtu áliti sendinefndar sinnar myndu umbætur á vinnumarkaðslíkani, sem tengdu betur saman launaþróun og framleiðni, vera til þess fallnar að auka samkeppnishæfni og fjölga störfum. Brýnt er að samstaða náist um skynsamlegar nálganir í þessum efnum eigi markmið um verðstöðugleika og atvinnusköpun að ná fram að ganga.