Er hin fullkomna manneskja hálfur Svíi og hálfur Íslendingur?

Íslandssvíi

Hlutfallslega fleiri Íslendingar en Svíar stofna eigið fyrirtæki um ævina og meiri frumkvöðlakraftur virðist búa í ungum Íslendingum en Svíum. Íslendingar eru mjög jákvæðir í garð lítilla fyrirtækja líkt og Svíar. Slæmu fréttirnar fyrir Íslendinga eru þær að það er mat almennings í Svíþjóð að viðskiptaumhverfið þar í landi sé mun hagstæðara en á Íslandi og að tækifæri ungra Svía til að hasla sér völl í stórum fyrirtækjum sem starfa út um allan heim eru meiri en Íslendinga. Svíar hafa líka sýnt meiri hugkvæmni í að nýta kosti einkareksturs í opinberri þjónustu. Kannski gætu þjóðirnar lært hvor af annarri?

Hvers vegna stofnar fólk fyrirtæki og hvers vegna ekki?

Í haust barst það í tal meðal forystumanna samtaka atvinnulífsins í Svíþjóð og á Íslandi að forvitnilegt væri að kanna hveru stór hluti fólks í þessum löndum hafi stofnað eigið fyrirtæki og hvers vegna fleiri fari ekki þá leið? Því var Capacent Gallup fengið til að kanna stöðu mála hér á landi en samtök atvinnulífsins í Svíþjóð (Svenskt Naringsliv) gerðu eigin viðhorfakönnun meðal sænsku þjóðarinnar.

Á Íslandi hafa tæplega 3 af hverjum 10 landsmanna stofnað fyrirtæki um ævina, á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Hlutfall karla er hærra, 37% á móti 21% hjá konum. Í Reykjavík hafa 23% stofnað eigið fyrirtæki, í nágrannasveitarfélögunum er hlutfallið 27% en 36% utan höfuðborgarsvæðisins.

Í Svíþjóð hafa hins vegar aðeins rúmlega 2 af hverjum 10 (21,1%) stofnað eigið fyrirtæki, 27,9% karla og  14,2% kvenna. Í Svíþjóð hafa flestir stofnað fyrirtæki í höfuðborginni eða 24,8% (sem er svipað hlutfall og í Reykjavík) en hlutfall þeirra sem hafa stofnað fyrirtæki utan Stokkhólms er lægra öfugt við það sem tíðkast á Íslandi - á Íslandi hafa hlustfallslega flestir á landsbyggðinni stofnað fyrirtæki.

Hvað bíður okkar?

Þegar horft er til framtíðar þá hafa rúmlega 4 af hverjum 10 Íslendinga mikinn eða nokkurn áhuga á að stofan eigið fyrirtæki. Næstum því annar hver karl (49%) vill stofna fyrirtæki en aðeins þriðjungur kvenna (33%). Svíar eru síður áhugasamir um að stofna eigið fyrirtæki, aðeins 12,8% Svía svara því játandi, 17,4% karla og 8,2% kvenna.

Ef horft er til ungs fólks á Íslandi á aldrinum 18-24 ára þá hefur tæpur helmingur mikinn eða nokkurn áhuga á að stofna eigið fyrirtæki. Ekki er marktækur munur á svörum fólks milli kynja í þessum aldurshópi sem sætir nokkrum tíðindum og vekur upp spurningar um hvort framundan séu breyttir tímar í atvinnulífinu og á íslenskum vinnumarkaði sem er mjög kynskiptur. Í Svíþjóð mælist áhuginn á að stofna eigið fyrirtæki lítill meðal ungs fólks, 17,7% á  aldursbilinu 15-22 ára, og aðeins 15,2% hjá fólki á aldrinum 23-35 ára.

Íslendingar eru jákvæðir!

Ef horft er til viðhorfa þjóðanna þá eru 94,4% Íslendinga jákvæðir í garð lítilla fyrirtækja, 5,3% hafa á þeim enga skoðun og aðeins 0,3% eru neikvæðir. 86% Svía eru hins vegar jákvæðir í garð lítilla fyrirtækja, 13,6% hafa á þeim enga skoðun, en 0,8% eru neikvæðir.

Getum við gert betur?

Samanburður milli þjóða er alltaf áhugaverður en stóra spurningin er sú hvort Íslendingar geti gert betur? Getum við lært af Svíum og geta þeir lært eitthvað af okkur?

Viðskiptaumhverfið er betra í Svíþjóð. Rúmlega helmingur Íslendinga telur að starfsumhverfi lítilla fyrirtækja sé slæmt og aðeins einn af hverjum fimm telur að það sé gott. Í Svíþjóð telja hins vegar 31,3% að viðskiptaumhverfið sé gott en aðeins 27,3% að það sé slæmt.

Í Svíþjóð ríkir meiri stöðugleiki í verðlagi, launum og gengi og þar eru mörg farsæl fyrirtæki sem hafa náð árangri á alþjóðlegum vettvangi. Þar í landi hafa menn einnig sýnt mun meiri framtakssemi með því að nýta einkarekstur í mennta- og heilbrigðiskerfinu en hér á landi með góðum árangri og betri nýtingu fjármuna. Á því sviði stöndum við Svíum að baki.

Góð fréttirnar fyrir Íslendinga eru þær að mikill kraftur býr í þjóðinni sem hægt er að virkja ef rétt er á málum haldið og bæta hér lífskjör verulega. Lítil fyrirtæki (með 2-49 starfsmenn) sem eru helsta uppspretta nýrra starfa, áforma t.d. að fjölga störfum um 14.000 á næstu 3-5 árum. Til að svo megi verða þarf að bæta starfsumhverfi þeirra verulega. Takist það minnkar atvinnuleysið fljótt og fólk sem er að koma inn á vinnumarkaðinn fær fjölbreytt tækifæri til að byggja upp sína framtíð.