Er hægt að efna kosningaloforðin?

"Hagvöxtur hefur tiltölulega lítið verið til umræðu í yfirstandandi kosningabaráttu og það er eins og væntingar standi almennt til þess að landsframleiðslan, kaupmátturinn og lífskjör landsmanna haldi áfram að batna á næstu árum í sama takti og verið hefur undanfarin ár. Í kosningabaráttunni eru vaktar væntingar um áframhaldandi uppbyggingu velferðarkerfisins, samgöngumannvirkja og annarra innviða samfélagsins samhliða því að skattar eiga að lækka. Reyndar heyrist líka að stöðva eigi einstök framfaramál í atvinnulífinu s.s. fjárfestingar í áliðnaði og orkuverum, hagstjórnin er gagnrýnd og jafnvægi lofað í efnahagslífinu.

Mikill vöxtur

Verg landsframleiðsla jókst um 5% árlega að meðaltali á árunum 2003-2006 sem er feykilega mikill vöxtur á alla mælikvarða í þróuðu hagkerfi eins og Ísland er. Reyndar virðast breytingarnar í efnahagslífinu hafa verið svo örar að hagtölurnar nái ekki að lýsa raunveruleikanum á fullnægjandi hátt. Þannig eru útgefnar hagvaxtartölur fyrir síðasta ár tiltölulega lágar, eða 2,6%, og samanburður á tölum um þróun verðmætasköpunar og vinnumarkaðar leiðir til þeirrar niðurstöðu að framleiðni vinnuafls hafi minnkað um 2 - 3% á sama tíma og kaupmáttur launa jókst um 2,6% og hlutfall launa í verðmætasköpuninni sé komið vel yfir 70%. Saman ganga þessar tölur ekki upp því að slík lækkun á framleiðni samfara hækkandi raunlaunum lýsir meiriháttar áföllum í atvinnulífinu og svo hátt launahlutfall lýsir gjaldþrotaástandi í mörgum fyrirtækjum. Tölur yfir viðskiptahalla upp á 26,7% af landsframleiðslu og neikvæða erlenda skuldastöðu upp á 120% eru heldur ekki í samræmi við raunveruleikann því svona stærðir lýsa yfirvofandi kreppu og nánast þjóðargjaldþroti.

Flestum gengur vel

Það er í algjörri andstæðu við þessar þjóðhagstölur að flestum atvinnugreinum vegnar býsna vel og almennt er sóknarhugur í íslenskum fyrirtækjum og væntingar góðar um framhaldið. Enginn frambjóðandi fyrir Alþingiskosningarnar hefur heldur í raun byggt sína stefnu og áform um verkefni á næsta kjörtímabili á því að bregðast við þessum tölum eða spám á grundvelli þeirra. Enginn stjórnmálaflokkur er t.d. að byggja heildstæða stefnumörkun í skattamálum, velferðarmálum eða opinberum fjárfestingum á þeirri sýn Seðlabankans að hagvöxtur á þessu og næsta ári verði innan við 1% hvort ár og að það verði beinlínis samdráttur á árinu 2009. Þetta á ekki síður við um stjórnarandstæðinga en stjórnarliða. Í stað þess að stjórnarandstæðingar taki þessa sýn Seðlabankans góða og gilda og tali um að takmarka þurfi skattalækkanir og jafnvel að hækka einhverja skatta eða að slá á frest hækkunum í lífeyriskerfi og hægja á uppbyggingu í heilbrigðiskerfi eða samgöngum þá felst í loforðum þeirra og áformum ennþá meiri trú á efnahags- og atvinnulífið. Trúin er svo mikil að stjórnarandstaðan vinnur auðveldlega loforðakeppnina við stjórnarliða á þessum sviðum og bætir um betur með því að lofa auk þess að nýta ekki borðliggjandi tækifæri til aukins hagvaxtar og framfara.

Hagvöxtur ekki af sjálfu sér

Hagvöxtur verður ekki af sjálfu sér en hann er undirstaða þess að hægt sé að halda áfram að bæta lífskjör á næstu árum. Það verður meginverkefni þeirra sem stýra málefnum þjóðarinnar á næsta kjörtímabili Alþingis að tryggja áframhaldandi hagvöxt. Það er ekki einfalt verkefni þar sem framleiðslugeta hagkerfisins er fullnýtt, atvinnuleysi er hverfandi og mikil þörf á starfsfólki erlendis frá. Það verður ekki síst snúið að viðhalda hagvexti þar sem verðbólgan hefur aftur látið á sér kræla og fer nú vaxandi á ný eftir mjög jákvæða þróun á síðari hluta ársins 2006.

Breytingarnar í atvinnulífinu hafa verið ótrúlegar síðustu fjögur árin og þær hafa verið leiddar af byltingunni i fjármálageiranum ekki síður en fjárfestingum í orkuverum og áliðnaði. Það eru nokkur lykilatriði sem munu ráða því hvort hagvöxturinn heldur áfram eða hvort stöðnunarskeið hefst og hvort tekst að halda verðbólgunni niðri. Varðandi verðbólguna verður að gæta þess að lykilþættir í hagkerfinu séu í góðu jafnvægi og þar eru líklega vinnumarkaðurinn og fasteignamarkaðurinn mikilvægastir eins og staðan er núna. Opinn vinnumarkaður er nauðsynlegur og ennfremur verður að halda utan um fasteignamarkaðinn með því að lækka aftur lánshlutföll og viðhalda nægu lóðaframboði þannig að fasteignaverð haldist stöðugt. Fyrir áframhaldandi hagvöxt verður að nýta öll þau tækifæri sem bjóðast, hvort sem það er í orkufrekum iðnaði, fjármálastarfsemi, ferðaþjónustu, upplýsingatækni eða í öðrum greinum sem hafa möguleika á því að vaxa og skila arði.

Starfsskilyrði í fremstu röð

Starfsskilyrði atvinnulífsins verða að vera í fremstu röð og halda þarf áfram því umbótastarfi sem unnið hefur verið í skattamálum með því að afnema skattskyldu söluhagnaðar milli fyrirtækja og lækka skatthlutfallið enn frekar. Þá þarf að innleiða enn nýja hugsun í opnun vinnumarkaðarins. Á næstu árum er ekki nóg að halda opnum vinnumarkaði gagnvart EES svæðinu og laða að starfsfólk þaðan inn í byggingariðnað, almennan iðnað, verslunar- og umönnunarstörf. Atvinnulífið mun í síauknum mæli þurfa á háskólamenntuðum sérfræðingum að halda erlendis frá til þess að geta haldið sókninni áfram. Þá er ekki bara verið að horfa til EES svæðisins heldur líka til Norður Ameríku, Kína og Indlands svo dæmi séu tekin. Við höfum byggt upp mikið fjármagn og þekkingu á Íslandi en greitt flæði alþjóðlegra sérfræðinga og þekkingar inn og út úr landinu verður sífellt mikilvægara til þess að efla samkeppnishæfni landsins. Þarna liggja mikil sóknarfæri og Ísland mun þurfa að gæta þess að verða opnara land en önnur á þessu sviði til þess að tryggja stöðu sína meðal best stæðu þjóða heims."

Vilhjálmur Egilsson