Er betra að veifa röngu tré en öngvu?

Enn og aftur hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti sína, nú í 15,5%, og enn og aftur er það misráðin ákvörðun af hálfu bankans. Seðlabankinn hefur alveg litið fram hjá því við vaxtaákvarðanir sínar á undanförnum misserum að íslenska fjármálakerfið verður sífellt alþjóðlegra og tengdara erlendum fjármálamörkuðum. Sú staðreynd hefur dregið úr virkni hefðbundinnar peningamálastefnu auk þess sem víðtæk verð- og gengistrygging fjárskuldbindinga hefur haft sömu áhrif. Ótæpilegar vaxtahækkanir Seðlabankans hafa því ekki unnið á verðbólgu heldur verið undirrót ójafnvægis og gengissveiflna sem hafa valdið íslensku atvinnulífi miklum skaða.

Nú þegar íslenska bankakerfið og ríkið búa allt í einu við afar takmarkaðan aðgang að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum hefur það mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf. Greiður aðgangur að erlendu lánsfé hefur verið undirstaða uppgangs og framfara í atvinnulífinu og nú þegar sá aðgangur hefur takmarkast svo mjög mun hægja verulega á efnahagslífinu. Háir vextir á Íslandi virka svo sannarlega við slíkar aðstæður og herða á samdrættinum þannig að búast má við verulegum erfiðleikum í atvinnulífinu ef aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum rýmkast ekki á ný.

Peningastefna Seðlabankans er mikið áhyggjuefni fyrir atvinnulífið og íslenska krónan er sífellt að veikjast sem samkeppnishæfur gjaldmiðill. Sé litið til þriggja mælikvarða þ.e. verðbólgu, vaxta og gengis gagnvart öðrum gjaldmiðlum, stendur íslenska krónan höllum fæti sama hvert litið er. Þessi veika samkeppnisstaða krónunnar hefur ýtt mjög undir umræður innan atvinnulífsins um hvort íslenska krónan eigi yfirleitt framtíð fyrir sér sem gjaldmiðill þjóðarinnar. Stjórn SA hefur ákveðið að setja á laggirnar nefnd sérfræðinga til þess að meta möguleika á evruvæðingu atvinnulífsins sem felur í sér að einkaaðilar noti ervuna sem gjaldmiðil í öllum viðskiptum sín á milli.

Þá er mikið áhyggjuefni hvað Seðlabankinn byggir greiningu sína á framvindu efnahagsmála á veikum grunni. Fyrir ári síðan gaf bankinn út spá sína fyrir 2007. Þá var mikil eftirspurn eftir vinnuafli og þensla. Störfum fór fjölgandi í atvinnulífinu. Í aðdraganda kosninga til Alþingis hafði þáverandi félagsmálaráðherra hækkað lánshlutfall Íbúðalánasjóðs í 90% sem fól í sér almenna hvatningu stjórnvalda til almennings um aukna eyðslu og fjárfestingar. Við þessi skilyrði spáði Seðlabankinn 0,7% hagvexti 2007 en hagvöxtur er nú áætlaður hafa verið 3,8% á því ári.

Í dag gaf Seðlabankinn svo út þjóðhagsspá fyrir árið 2008. Nú liggur fyrir að búið er að takmarka mjög aðgang íslenskra banka og þar með atvinnulífsins að erlendu lánsfé. Fyrirtæki reyna að ljúka þeim fjárfestingarverkefnum sem búið var að taka ákvörðun um og fjármagna en fá ný verkefni fara af stað ef þau þurfa á fjármögnun íslensku bankanna að halda. Víðast hvar er horft fram á samdrátt og jafnvel uppsagnir starfsfólks og mun auðveldar gengur að fylla laus störf en áður. Útlendingar sem voru komnir til landsins fara margir til síns heima og í heild blasir við að störfum í íslensku atvinnulífi muni fækka eitthvað og fækka mikið ef ekki rætist úr með aðgang að fjármagni. Við þessi skilyrði spáir Seðlabankinn 2,2% hagvexti í ár. Þannig virðist bankinn spá hagvexti algerlega í öfugu samhengi við það sem almennar horfur í atvinnulífinu benda til.

Hinn veiki grunnur sem bankinn hefur byggt á kemur ekki síst fram í talnaefni um stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum og tekjur þjóðarinnar af fjármagnsviðskiptum. Hagtölurnar hafa ár eftir ár sýnt að ávöxtun á eignir þjóðarinnar hafi verið lægri en vextir af skuldum hennar og tölur um viðskiptahalla, t.d. 25% árið 2006 og 15% árið 2007 eru taldar óræk merki um hið mikla ójafnvægi sem ríkt hefur í þjóðarbúskapnum. Á sama tíma hefur fjármálageirinn verið að sækja fram erlendis og er orðin helsta útflutningsgreinin. Einhvern veginn hefur það samt gerst, þrátt fyrir þessa slöku frammistöðu samkvæmt tölum Seðlabankans um tekjur af fjármagnsviðskiptum, að eigið fé bankanna hefur vaxið úr rúmum 114 milljörðum króna í árslok 2003 í tæpa 920 milljarða króna í árslok 2007 eða um meira en 800 milljarða króna. Þessi vöxtur er sambland af aðkomu nýrra fjárfesta og góðri ávöxtun eigin fjár. Aðrir íslenskir fjárfestar, hvort heldur eru lífeyrissjóðir eða aðrir, hafa líka stórbætt stöðu sína á þessum tíma. Þrátt fyrir ótal ábendingar um að lagfæra þurfi þetta talnaefni og greina raunverulega stöðu þjóðarbúsins hefur alltof lítið verið gert í þeim efnum. Eftir standa hins vegar villurnar sem rýra stórlega álit á íslensku efnahagslífi erlendis og gerir fjármálageiranum og öllu atvinnulífinu erfitt um vik.

Seðlabankinn birtir í dag grein eftir starfsmann bankans, sem þó á ekki að þurfa að endurspegla skoðanir bankans, með þeirri mikilvægu niðurstöðu að hrein erlend staða þjóðarbúsins, þ.e. erlendar eignir umfram erlendar skuldir, sé mun betri en áður hafi verið talið. Hrein erlend staða hafi verið neikvæð um 27% af landsframleiðslu í lok þriðja ársfjórðungs 2007 í stað 120% og að erlendar eignir hafi verið 173% hærra hlutfall af landsframleiðslu en samkvæmt opinberum tölum bankans. Byggir þetta endurmat eingöngu á því að meta beinar fjárfestingar innlendra aðila erlendis (t.d. yfirtökur innlendra aðila á erlendu fyrirtæki), sem og beinar fjárfestingar erlendra aðila hérlendis, á markaðsvirði í stað bókfærðs virðis. Þetta endumat dregur upp mun jákvæðari mynd af íslenskum þjóðabúskap en áður og þess vegna er brýnt að bankinn taki upp þessa framsetningu á eignum og skuldum þjóðarbúsins en láti ekki við það sitja að starfsmenn bankans riti greinar.

Lakast er þó að efnahagsmálum þjóðarinnar er stjórnað svipað og ef fyrirtæki væri stýrt án þess að stjórnandinn vissi hvort reksturinn skili tapi eða hagnaði. Þannig liggur fyrir að þjóðartekjur jukust mun meira en hagtölur hafa sýnt á árunum 2003 - 2007 og að fall þjóðartekna getur orðið verulegt á þessu ári ef fjármálamarkaðir rétta ekki úr kútnum. Samt spáir Seðlabankinn meiri hagvexti á þessu ári, þegar allt er á niðurleið, en hann gerði fyrir ári síðan vegna ársins 2007 þegar allt var á uppleið.

Er nema eðlilegt að bankinn sjái ekki neina leið aðra en hækka vexti? Er kannski gamla aðferðin frá árum áður komin aftur í notkun? Það er betra að veifa röngu tré en öngvu.

Framkvæmdastjórn SA