Er 30% launahækkun í lagi?

Grein Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Fréttablaðinu:

Það eru ekki mörg dæmi þess í þróuðum ríkjum að launakostnaður hækki um 30% í kjarasamningum, eða sem nemur 10% árlega, eins og samið var um í byrjun þessa mánaðar í kjarasamningi Reykjavíkurborgar við tvo stærstu viðsemjendur sína. Eðlilegt er að spurt sé hverju þetta sæti og hvort þessar hækkanir smitist ekki út um allan vinnumarkaðinn og valdi mikilli verðbólgu þegar öll áhrifin eru komin fram.

Verðbólgan

Það hefur verið of mikil verðbólga á Íslandi á þessu ári og leiddi það til þess að  kjarasamningar voru endurskoðaðir með aðkomu ríkisins. Undanfarin ár hefur verðbólgan einnig verið allt of mikil. Á árabilinu 1999 til 2005 hækkaði verðlag á Íslandi um 33% sem reiknast sem 4,1% árleg hækkun að meðaltali. Á sama tíma hækkaði verðlag í evru-löndunum um 14% eða sem nemur 1,9% árlega að meðaltali. Verðbólgan á Íslandi hefur sem sagt verið tvöfalt meiri en á okkar helsta viðskiptasvæði á undanförnum árum. Enginn spáir því að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar náist á næstu tveimur árum.

Launahækkanir

Meginástæður verðbólgunnar á Íslandi eru miklar launahækkanir. Á síðustu sjö árum, 1999-2005, hafa laun skv. launavísitölu hækkað um 56%, þar af á almennum vinnumarkaði um 50% og hjá hinu opinbera um 67%. Að meðaltali hafa árlegar launahækkanir numið 6,6%, þar af 5,9% á almennum markaði og 7,6% hjá hinu opinbera. Til samanburðar hafa laun hækkað um 15% að meðaltali á almennum vinnumarkaði í Evrulöndum á þessu tímabili sem reiknast sem 2,0% árlega. Þessi einfalda staðreynd um meginorsök verðbólgu á Íslandi vefst fyrir ótrúlega mörgum.

Samhengi hlutanna

Önnur staðreynd sem vefst fyrir mörgum er að launabreytingar samkvæmt kjarasamningum á hverjum tíma geta ekki verið mjög mismunandi frá einum samningi til annars. Í upphafi hvers samningstímabils myndast ákveðin stefna um hækkanir í kjarasamningum við gerð fyrstu samninganna og er síðan reynt að fylgja þeirri stefnu í aðalatriðunum í þeim samningum sem sigla í kjölfarið. Veruleg frávik frá launastefnunni eru óframkvæmanleg nema þau byggi á víðtækum skilningi í þjóðfélaginu á nauðsyn breyttrar stöðu viðkomandi hóps eða starfsgreinar í launastiganum. Ella myndi myndast spírall stigvaxandi launahækkana sem endar með óðaverðbólgu og hruni. Slíkt atferli var meginreglan í launasamningum hér á landi fyrir nokkrum áratugum og var líkt við höfrungahlaup. 

Launastefnan og hinir lægst launuðu

Hlutfallið milli launataxta og raunverulega greiddra launa er einnig tregbreytanlegt. Í kjarasamningunum 1997 og aftur árið 2000 voru lægstu launataxtar hækkaðir verulega umfram laun almennt án þess að það leiddi síðar til samsvarandi hækkana á greiddum launum. Kaupmáttur lágmarkslauna hefur hækkað um rúm 60% frá ársbyrjun 1995 til þriðja ársfjórðungs 2005 samanborið við 29% á almennum vinnumarkaði. Skýringin á því hvers vegna þetta var hægt er sú að á fyrri hluta tíunda áratugarins lækkaði hlutfall launataxta og greiddra launa það mikið að svigrúm var til hækkunar þess án hliðaráhrifa. Sú staða er ekki uppi nú. 

Keðjuverkandi áhrif samninganna

Það er ástæða til að óttast að samningar borgarinnar muni hafa keðjuverkandi áhrif á aðra samningsgerð. Kröfur leikskólakennara um "leiðréttingu" hafa ekki farið leynt og sam heyrist frá starfsmannafélögum annarra sveitarfélaga. Félög iðnaðarmanna, sem gerðu samninga við borgina í janúar sl. hafa beintengingu við nýgerða samninga og borgin á eftir að semja við félög háskólamanna. Samningar sveitarfélaganna við starfsmannafélögin og kennarafélögin hafa haft og munu hafa áhrif á samninga ríkisins við sína viðsemjendur. Nýgerðir samningar skapa nýja viðmiðun sem stéttarfélögin í landinu og viðsemjendur þeirra munu máta sig við. Áhrifin á almenna vinnumarkaðinn má greina í tvo farvegi. Annars vegar mun launaskrið að öllum líkindum aukast þar sem stjórnendur fyrirtækja munu reyna að verjast því að sveitarfélögin dragi starfsmenn þeirra út úr fyrirtækjunum og inn í störf í sveitarfélögunum. Hins vegar munu stéttarfélögin á almenna markaðnum, þegar fram í sækir, leitast við að jafna taxta sína við launataxta sveitarfélaganna, sem í flestum tilvikum eru hærri.

Verðbólgusamningar

Samningar borgarinnar við viðsemjendur sína eru verðbólgusamningar. Verðbólga veldur tjóni og baráttan við hana líka þar sem landsmenn þurfa að búa við hærri vexti en annars þyrfti að vera og fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni blæðir vegna hágengis. Kjarasamningar með miklum prósentuhækkunum veikja því atvinnulífið og rýra lífskjörin þvert á það sem stefnt var að við gerð þeirra. Þetta er gömul saga á Íslandi, sem vonast var til að dýrkeypt reynsla hefði kennt að yrði ekki endurtekin, en því miður virðast hörmungar verðbólguáranna fyrir 1990 að mestu vera gleymdar.