Enn lækkar hlutfall matarútgjalda

Niðurstöður úr rannsókn á útgjöldum heimilanna fyrir árin 2003-2005 hafa verið gefnar út í nýju hefti Hagtíðinda. Þar kemur fram að hlutfall mat- og drykkjavöru í útgjöldum heimilanna heldur áfram að lækka miðað við árin 2002-2004, úr 14,4% í 12,9%. Athygli vekur að afar lítill munur er á hlutfalli matarútgjalda eftir útgjaldahópum. Tekjulág heimili verja hlutfallslega álíka stórum hluta útgjalda til kaupa á matvöru og tekjuhá heimili.

Lítill munur eftir útgjaldahópum

Útgjöld til kaupa á mat- og drykkjarvöru eru birt eftir tekjutíundum en þá er heimilunum sem tóku þátt í rannsókninni raðað eftir hæð tekna og síðan skipt í 10 jafnstóra hópa. Litlu munar á hlut matvæla í neyslukörfu hópanna en í Hagtíðindum kemur fram að því sé oft haldið fram að þar sem matvæli séu meðal helstu nauðsynja heimilanna, sé lækkun á verði þeirra sérstaklega fallin til þess að bæta hag heimila sem lægstar hafi tekjurnar. Útgjaldarannsóknin sýni hins vegar að tekjulág heimili verji hlutfallslega álíka stórum hluta útgjalda til kaupa á matvöru og tekjuhá heimili. Lækkun matarverðs leiðir því til tiltölulega jafnrar kaupmáttaraukningar allra heimila óháð tekjustigi.

Niðurstöðurnar sýna að hjá þeim tíunda hluta heimilanna sem minnstar hefur tekjurnar fara um 14% útgjalda í mat og drykk en 10,8% hjá þeirri tíund sem hæstar tekjur hefur. Samanburður útgjalda sýnir að heimili í fyrstu níu tekjutíundunum verja svipaðri fjárhæð til kaupa á matvælum á svokallaða neyslueiningu, á bilinu 236-292 þúsund krónur. Þeir sem minnstu eyða verja 13% minna en meðalheimilið til matarkaupa, en þeir sem mestu eyða 20% meiru en meðalheimilið. Ef horft er á útgjöld á hvern heimilismann er munurinn minni. Meðaltal útgjaldanna er um 212 þúsund krónur á ári, lægstu útgjöldin eru 194 þúsund að meðaltali á mann. Í níundu tíundinni nema þau tæplega 224 þúsund krónum en í þeirri tíundu 248 þúsundum. Útgjöld flestra heimila eru mjög nálægt meðaltalinu.

Matvöruútgjöld heimila eftir tekjutíundum 2003-2005

Matvöruútgjöld heimila 2003-2005

Heimild: Hagtíðindi, 2006:7.

Smellið til að sjá stærri mynd.

Um rannsóknina

Rannsókn Hagstofu Íslands er einungis ætlað að leiða í ljós hver útgjöld heimilanna eru og hvernig þau skiptast. Ekki er á neinn hátt reynt að meta hvort útgjöld teljast nauðsynleg framfærsla eða ekki. Rannsóknin gefur því ekki upplýsingar um hvað heimili þurfa sér til framfærslu.

Árið 2000 hófst óslitin rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna og eru nýjar niðurstöður birtar árlega. Í úrtaki rannsóknarinnar nú voru um 3.600 heimili, 1.773 þeirra tóku þátt í rannsókninni og var svörun því tæplega 50%. Ráðstöfunartekjur meðalheimilisins í rannsókninni eru um 365 þúsund krónur á mánuði, tæpar 146 þúsund krónur á mann. Ráðstöfunartekjur flestra hópa eru hærri en útgjöld þeirra en neysluútgjöldin eru að meðaltali um 94% af ráðstöfunartekjum.

Sjá nánar: Hagtíðindi: Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2003-2005 (PDF-skjal).