Efnahagsmál - 

13. október 2011

Enn horfur á lítilli atvinnuvegafjárfestingu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Enn horfur á lítilli atvinnuvegafjárfestingu

Nærri sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum SA hyggjast ekki leggja í umtalsverðar fjárfestingar eða endurbætur á næsta ári, 27% telja það óvíst en einungis 14% hyggjast gera það. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á fjárfestingaráformum fyrirtækjanna.

Nærri sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum SA hyggjast ekki leggja í umtalsverðar fjárfestingar eða endurbætur á næsta ári, 27% telja það óvíst en einungis 14% hyggjast gera það. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á fjárfestingaráformum fyrirtækjanna.

Þegar svörum er skipt eftir atvinnugreinum kemur í ljós að niðurstöður í sjávarútvegi, iðnaði, og verslun og þjónustu eru svipaðar heildarniðurstöðunni, þ.e. 11-14% fyrirtækjanna í þessum greinum áforma fjárfestingar á næsta ári, en 55-62% ætla ekki að gera það. Fjárfestingaáformin eru algengust í ferðaþjónustu þar sem 26% fyrirtækjanna hyggjast ráðast í fjárfestingar en 35% ekki. Í fjármálaþjónustu hyggjast 79% fyrirtækjanna ekki ráðast í fjárfestingar.

Hyggst fyrirtækið leggja í umtalsverðar fjárfestingar á árinu 2012?

  


Niðurstöðurnar eru mjög áþekkar þeim sem fengust í könnun SA í nóvember 2010. Þá sögðust 58% ekki ætla að ráðast í umtalsverðar fjárfestingar en 12% ætla að fjárfesta. Það er einkum í ferðaþjónustu sem fjárfestingaráform hafa aukist, úr 21% 2010 í 26% nú.

Skýringar forsvarsmanna á fjárfestingaráformum

Í könnuninni var forsvarsmönnum fyrirtækjanna gefinn kostur á því að gefa skýringar á því hvers vegna ráðist verði í fjárfestingar eða ekki á næsta ári. Alls gáfu 342 skýringar á svörum sínum.

Rúmlega 50 gáfu skýringar að eigin vali á því hvers vegna fyrirtækin hyggjast ráðast í umtalsverðar fjárfestingar á næsta ári og voru skýringarnar margbreytilegar. Meðal þeirra voru að tryggja samkeppnishæfni, bæta þjónustu, fylgja tækniþróun, styrking tækjabúnaðar, endurbætur og endurnýjun tækja og húsnæðis. Einnig voru nefndar fjárfestingar í markaðsmálum og vöruþróun.

276 gáfu skýringar að eigin vali á því hvers vegna fyrirtækin hyggjast ekki ráðast í umtalsverðar fjárfestingar á næsta ári. Skýringarnar voru flokkaðar í 7 flokka og taldi tæpur þriðjungur svarenda óvissu í rekstrarumhverfinu vera helstu ástæðuna. Að viðbættri óvissu í sjávarútvegsmálum töldu 40% óvissu framundan meginástæðu þess að ekki verður ráðist í fjárfestingar. Fjórðungur sagði erfitt rekstrarumhverfi og slaka rekstrarafkomu vera helstu ástæðuna. 11% töldu fjármagnskostnað eða takmarkaðan aðgang að fjármagni vera meginástæðuna, 7% efnahagsstöðu fyrirtækisins og önnur 7% röktu ástæðuna til skatta- eða atvinnustefnu stjórnvalda.

Ástæður þess að ekki verður ráðist í fjárfestingar 2012


Þegar borin eru saman svör nú við þær skýringar sem gefnar voru fyrir ári hefur þeim fjölgað úr 29% í 40% sem telja óvissu í rekstrarumhverfinu og óvissu í sjávarútvegsmálum helstu ástæðu þess að ekki er ráðist í fjárfestingar. Hins vegar hefur þeim fækkað úr 32% í 25% sem telja erfitt rekstrarumhverfi og rekstrarafkomu meginástæðuna.

----------

Um könnunina

Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 6. - 11. október 2011 en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf. Markmiðið með könnuninni var að fá skýrari mynd af horfunum framundan í íslensku atvinnulífi.

Könnunin var send til 1.684 fyrirtækja.Fjöldi svarenda var 482 og  svarhlutfall því 29%. 30.000 starfsmenn starfa hjá þeim fyrirtækjum sem þátt tóku í könnuninni og er áætlað að 83.000 manns starfi um þessar mundir í þeim atvinnugreinum sem könnunin nær yfir.

Samtök atvinnulífsins