Endurskoðun lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði auðvelduð

Gera þarf breytingar á íslensku lagaumhverfi þannig að þjónusta endurskoðenda falli betur að stærð fyrirtækja og þörfinni fyrir að staðfesta upplýsingar. Þetta segir Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte á Íslandi. Hann bendir á að í Danmörku sé auðveldara fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að láta endurskoða eða yfirfara reikninga sína og telur að taka ætti upp sama fyrirkomulag á Íslandi. Í stað fullrar endurskoðunar geta fyrirtæki innan ákveðinna stærðarmarka látið gera ítarlega könnun á ársreikningum sínum.

Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte á Íslandi

Þorvarður var meðal ræðumanna á Smáþingi þar sem málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja voru í kastljósinu.  Þorvarður segir að með því að fara dönsku leiðina megi spara fjármuni í atvinnulífinu án þess að það hafi veruleg áhrif á gæði ársreikninga fyrirtækjanna. Í Danmörku er t.d. gert ráð fyrir að 95% fyrirtækja geti nýtt sér svokallaða ítarlega könnun á ársreikningi í stað endurskoðunar. Nýleg lagabreyting  var hluti af átaki danskra stjórnvalda til að minnka kostnað í dönsku atvinnulífi. Fyrirtæki með 12-50 starfsmenn, 8-72 milljónir danskra króna í tekjur og eignir á bilinu 4-36 milljónir danskra króna hafa rétt á að láta gera ítarlega könnun á ársreikningum sínum í stað fullrar endurskoðunar.

Þorvarður segir að ef þessi leið verði farin á Íslandi muni það gagnast öllum. Endurskoðandinn þurfi  ekki að fylla út ýmis vinnuskjöl sem krafist er í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla heldur nýtist tími hans betur í reikningsskila- og skattalöggjöf fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Það sé til bóta fyrir eigendur fyrirtækjanna,  viðskiptalífið allt, endurskoðendur og  ekki síst hið opinbera sem fái betri og öruggari gögn sem varða lítil og meðalstór fyrirtæki.

Þá segir Þorvarður að á Íslandi þurfi jafnframt að endurskoða stærðarviðmið fyrirtækja sem hvorki þurfi á endurskoðun né ítarlegri könnun ársreikninga að halda. Danskar reglur eigi vel við hér á landi en þar þurfa fyrirtæki með færri en 12 starfsmenn hvorki að láta endurskoða reikninga sína né að láta fara fram ítarlega könnun.

Glærur Þorvarðar má nálgast hér að neðan ásamt upptöku af erindi hans.

Glærur Þorvarðar


Fylgstu með okkur:
www.facebook.com/LitlaIsland