Efnahagsmál - 

08. Júní 2009

Endurreisn fyrirtækja vandmeðfarin

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Endurreisn fyrirtækja vandmeðfarin

Aldrei í lýðveldissögunni hefur ástandið verið jafn alvarlegt hjá jafn mörgum fyrirtækjum. Þetta segir Þór Sigfússon, formaður SA, í grein í Morgunblaðinu. Þór segir að bregðast verði skjótt við en endurreisn fyrirtækja sé vandmeðfarin. Reisa verði rekstur þeirra við í nánu samstarfi við eigendur og lykilstarfsmenn.

Aldrei í lýðveldissögunni hefur ástandið verið jafn alvarlegt hjá jafn mörgum fyrirtækjum. Þetta segir Þór Sigfússon, formaður SA, í grein í Morgunblaðinu. Þór segir að bregðast verði skjótt við en endurreisn fyrirtækja sé vandmeðfarin. Reisa verði rekstur þeirra við í nánu samstarfi við eigendur og lykilstarfsmenn.

Þór segir fyrirtækin sem eru vandræðum eiga fátt sameiginlegt annað en að vera hluti af fjölbreyttri íslenski fyrirtækjaflóru. Bæði stór og smá fyrirtæki með starfsemi á Íslandi og um 70-90 þúsund starfsmenn í vinnu. "Bróðurparti þeirra er alls ekki hægt að kenna um kreppuna eða telja að þau hafi farið glannalega í rekstri sínum." Þór segir útilokað að bankarnir eða nýtt eignaumsýslufélag ríkisins leysi til sín öll þessi fyrirtæki. Krafa um að skipta þurfi út öllum stjórnendum fyrirtækja sem eigi í vandræðum sé ekki sanngjörn. Langstærstur hluti þeirra fyrirtækja sem nú teljist tæknilega gjaldþrota hafi ekki verið í eigu stórefnafólks eða eignarhaldsfélaga þeirra fyrir hrunið. Um sé að ræða venjuleg fyrirtæki í eigu einstaklinga sem margir hafa lagt lífsstarf sitt í uppbyggingu þeirra.

"Það gengur ekki að dæma 5 þúsund stjórnendur og eigendur íslenskra fyrirtækja, sem flest eru lítil fyrirtæki með 5-50 starfsmenn, óhæfa og að það sé bara réttlætismál að skipta þeim út. Við komumst ekkert með þá aðferðafræði og munum að þessir einstaklingar voru ekki partur af stóru veislunni heldur í flestum tilfellum gott rekstrarfólk sem hafði áhuga og kraft til þess að byggja upp góða starfsemi og hafði trú á fyrirtækinu og því umhverfi sem það starfaði í," segir Þór meðal annars í grein sinni.

Grein Þórs í Morgunblaðinu 4. júní má lesa í heild hér að neðan:

Endurreisn fyrirtækja

Eftir erfiðan vetur með hruni banka og krónu og ofurvöxtum eru íslensk fyrirtæki komin af fótum fram. Um 50-70% fyrirtækja eiga ekki fyrir vöxtum og afborgunum af lánum sem hafa hækkað langt umfram upphaflegar forsendur. Þessi staða gerir það að verkum að við erum læst inni í vítahring þar sem fyrirtæki geta ekki fjárfest í nýjum vélum eða tækjum, fækka frekar fólki en að ráða og sjá fram á að veturinn 2009-2010 verði vetur vonleysis.

Við þurfum að bregðast skjótt við því aldrei í lýðveldissögunni hefur ástandið verið jafn alvarlegt hjá jafn mörgum fyrirtækjum. Fyrirtækin, sem eiga í vandræðum, eiga fátt sameiginlegt annað en að vera partur af fjölbreyttri íslenski fyrirtækjaflóru; lítil fyrirtæki og stór fyrirtæki. Þetta eru fyrirtæki með starfsemi á Íslandi, hafa um 70-90 þúsund starfsmenn í vinnu og bróðurparti þeirra er alls ekki hægt að kenna um kreppuna eða telja að þau hafi farið glannalega í rekstri sínum.

Íslenskir bankar vilja nú bregðast við ákalli margra lítilla og meðalstórra fyrirtækja og hefja endurreisn þeirra. Sú endurreisn er þó vandmeðfarin enda virðist stundum sem reiðin sé slík í þjóðfélaginu að helst eigi að koma öllum eigendum og stjórnendum fyrirtækja frá og fá nýtt lið við stjórnvölinn í hundruðum og jafnvel þúsundum fyrirtækja. Þá sé réttlætinu fullnægt. Munum að langstærstur hluti þeirra fyrirtækja sem nú teljast tæknilega gjaldþrota voru ekki í eigu stórefnafólks eða eignarhaldsfélaga þeirra fyrir hrunið. Þetta eru venjuleg fyrirtæki í eigu einstaklinga sem margir hafa lagt lífsstarf sitt í uppbyggingu fyrirtækja sinna og þótt fyrirtækin sem mörg hver ekki stór þá liggur að baki þeim mikil vinna og sérþekking. Það er algerlega óraunhæft og kraftvitlaust að dæma þúsundir einstaklinga í íslensku atvinnulífi úr leik. Við þurfum að vinna að endurreisn fyrirtækja í nánu samstarfi við eigendur þeirra og lykilstarfsmenn því útilokað er að bankarnir eða nýtt eignaumsýslufélag ríkisins leysi til sín öll þessi fyrirtæki.

Sanngjörn leið við endurskipulagningu fyrirtækja, sem bankarnir telja að eigi sér góða framtíð og hafi sýnt góðan rekstur um árabil, er að bankarnir eigi samstarf við eigendur þessara fyrirtækja um endurreisn. Ef samstarf á að eiga sér stað við eigendur þurfa þeir þó að sýna fram á að þeir séu reiðubúnir til þess að leggja fram nýtt eigið fé. Bankarnir þurfa augljóslega að afskrifa þær skuldir fyrirtækja sem eru umfram greiðslugetu en gera þó þá kröfu til eigenda að þeir leggi fram nýtt eigið fé sem tapast ef ekki tekst að snúa rekstrinum við.

Önnur leið er sú að bjóða eigendum og stjórnendum, ekki síst lítilla fyrirtækja, að starfa áfram og eiga möguleika á að eignast fyrirtækin að nýju, ef og þegar tekist hefur að snúa rekstrinum við. Að sjálfsögðu þarf einnig að hafa þá leið opna að bjóða meðalstór fyrirtæki til sölu á markaði en ljóst er þó að sú leið er miklum mun seinfærari og getur tafið fyrir endurreisn atvinnulífsins ef hana á að nota á hundruð fyrirtækja. Ástæða þess er meðal annars sú að í mörgum tilfellum krefst sú leið gjaldþrotameðferðar sem tekur allt að 2 ár.

Hvaða leið sem farin verður krefst þess að gætt sé að samkeppnis- og sanngirnissjónarmiðum við endurreisn fyrirtækja. Við megum hins vegar ekki tapa okkur í því nú að allsherjar hreinsunin þýði að eigandi iðnfyrirtækis, sem keypti nýja vél frá Bandaríkjunum í fyrra þegar gengi dollarans var 59, þurfi að fara frá borði þar sem hann hefði átt að sjá fyrir hrunið hér og erlendis og að eigandi þjónustufyrirtækis sem ráðlagt var að taka lán í jenum og svissneskum frönkum til að kaupa annað þjónustufyrirtæki, sé dæmdur úr leik nú fyrir "glannagang". Það gengur ekki að dæma 5 þúsund stjórnendur og eigendur íslenskra fyrirtækja, sem flest eru lítil fyrirtæki með 5-50 starfsmenn, óhæfa og að það sé bara réttlætismál að skipta þeim út. Við komumst ekkert með þá aðferðafræði og munum að þessir einstaklingar voru ekki partur af stóru veislunni heldur í flestum tilfellum gott rekstrarfólk sem hafði áhuga og kraft til þess að byggja upp góða starfsemi og hafði trú á fyrirtækinu og því umhverfi sem það starfaði í.

Endurreisn fyrirtækja hefst fyrst þegar við gerum okkur grein fyrir umfangi þess vanda sem þau standa frammi fyrir og að þau eru í flestum tilfellum fórnarlömb þess ástands sem nú ríkir en ekki gerendur. Með því viðhorfi geta bankar sest niður með þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum og gert þeim kleift að eignast framtíð að nýju.

Höfundur er formaður Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins