Endurreisa þarf samkeppnishæfni atvinnulífsins

"Ég tel að þegar horft er til næstu ára sé stóra verkefnið að endurreisa samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins. Hann bendir á að ýmislegt þurfi að bæta í viðskiptalífinu. Afnám hafta sé forgangsatriði en það sé ólíðandi starfsumhverfi fyrir fyrirtæki að búa við gjaldeyrishöft. Í viðtalinu ræðir hann m.a. um mikilvægi góðs samstarfs við stjórnvöld, góð og vel launuð störf, stöðu íslensks sjávarútvegs, menntamál, sóknarfæri í orkuiðnaði, nýsköpun og skatta, komandi kjaraviðræður og ríkisfjármálin auk tækifæranna til að auka hér hagsæld og kaupmátt á næstu árum.

Höft eru skaðleg
Að búa við gjaldeyrishöft er algjörlega óþolandi starfsumhverfi fyrir fyrirtæki en skaðinn af þeim er ekki alltaf sýnilegur. "Það starfsumhverfi sem t.d. öll nýju tæknifyrirtækin sem sprottið hafa fram á undanförnum árum búa hér við gerir þeim nánast ókleift að stíga skrefið út fyrir landsteinana, sem er oftar en ekki forsenda þessara fyrirtækja. Með áframhaldandi höftum munu þessi fyrirtæki einfaldlega hrökklast úr landi eða hreinlega ekki ganga upp. Það er óhugsandi framtíðarsýn fyrir okkur sem við verðum að ráða bót á. Okkar helsta forgangsatriði er eins hratt afnám hafta og mögulegt er."

Þorsteinn Víglundsson. SA-Mynd: BIG

Þorsteinn vonar að það takist að afnema höft á þessu kjörtímabili þó óvíst sé að hvað miklu leyti okkur takist að afnema þau. "Mikilvægast er að fyrirtæki geti haft tiltölulega eðlilegt rekstrar- og fjárfestingar umhverfi og frelsi til fjármagnsflutninga innan þess."

Gott samstarf við stjórnvöld mikilvægt
Í viðtalinu segir Þorsteinn að Samtök atvinnulífsins vilji eiga gott samstarf við stjórnvöld á hverjum tíma. Aðalatriðið gagnvart nýrri ríkisstjórn sé að sátt ríki um atvinnulífið, lögð sé áhersla á samkeppnishæfni atvinnulífisins og getu þess til uppbyggingar. Nauðsynlegt sé að traust ríki á milli aðila og hægt sé að treysta því sem lofað er.

Íslenskur sjávarútvegur í fremstu röð
"Íslenskur sjávarútvegur er í mjög sterkri stöðu á alþjóðavísu og við erum ein af fáum þjóðum sem reka útveg með hagnaði," segir Þorsteinn aðspurður. Hann segir greinina vel samkeppnishæfa á alþjóðavísu. Það sé afrakstur áratuga uppbyggingar í sjávarútvegi sem byggist á aflamarkskerfinu sem komið var á fyrir um þremur áratugum síðan. Hins vegar hafi stjórnmálamenn skapað óþarfa óvissu í kringum greinina.

"Það hvernig stjórnvöld hafa verið að grauta í fiskveiðistjórnunarkerfinu samfellt í fjögur ár hefur valdið óþarfa óvissu um rekstrarhorfur greinarinnar og hún hefur liðið mjög fyrir það. Sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein sem er hvað svartsýnust á sínar horfur því nær engin áform eru uppi um fjárfestingar þrátt fyrir að grunnafkoma greinarinnar sé í ágætu lagi. Það er vegna þess að veruleg óvissa hefur verið um hvernig fiskveiðistjórnunarkerfið verði til framtíðar, bæði hvort verið væri að fara í fyrningu á aflaheimildum og hvert skattheimtustigið yrði á greininni og hvort hún gæti yfirhöfuð risið undir þeim skattheimtuhugmyndum sem stjórnvöld voru með. Þetta er algjörlega óþolandi starfsumhverfi fyrir atvinnugreinina."

Þorsteinn segir við Morgunblaðið í góðu lagi að fara í reglubundna endurskoðun á kerfinu og það þurfi að draga lærdóm af því sem virkað hefur vel í kerfinu. Halda þurfi í grunneiginleika aflamarkskerfisins og gæta að því að við séum áfram með arðbæran sjávarútveg. Mikilvægt sé að stjórnvöld sendi skýr skilaboð um sjávarútvegsstefnuna og skattlagningu. "Það þarf að gerast hratt svo sjávarútvegsmenn fái ákveðna vissu fyrir sínum rekstrarforsendum og hefji vonandi fjárfestingar á ný. Þessi atvinnugrein hefur verið lang svartsýnust í okkar könnunum varðandi fjárfestingaráform. Við gætum séð mjög hraða breytingu til batnaðar þar ef stjórnendum fyrirtækjanna er gefin góð von um heilbrigt og skynsamlegt rekstrarumhverfi til lengri tíma litið." Þá telur Þorsteinn að það sé almenn sátt um greiðslu einhvers konar auðlinda- eða veiðigjalds þvert á flokka.

"Ný ríkisstjórn þarf að ná víðtækari sátt um kvótakerfið og ákveða með hvaða hætti það verður til framtíðar svo útvegurinn hafi góða sýn 20-30 ár fram í tímann með hvaða hætti fyrirkomulagið verður. Svona kerfi þarf að vera hafið yfir pólitískar deilur á hverjum tíma og samstaðan þarf að ná út fyrir þrengstu raðir stjórnarflokkanna, því þetta er grunnstoð atvinnulífsins og lífsnauðsynlegt að það sé stöðugleiki til áratuga en ekki fárra ára í senn."

Orkuiðnaður verðmæt stoð
Þorsteinn segir margt sameiginlegt með málefnum orkufreks iðnaðar og sjávarútvegs á Íslandi.

 "Fyrri ríkisstjórn var í mikilli hugmyndafræðilegri deilu hvort og með hvaða hætti nýta mætti orkuauðlindina. Um þetta þarf að ná mun meiri sátt og vera góð langtíma sýn á hvaða kostir séu til nýtingar og hvaða kostir verði verndaðir," segir hann og bætir við að verkefni sem taki jafnvel áratugi að þróa þurfi mikið öryggi svo unnt sé að hámarka arðsemi og afkomu af greininni. "Það væru jákvæð skilaboð inn í hagkerfið um aukin umsvif og von til hagvaxtar að hleypa hér af stað framkvæmdum. Til lengri tíma litið væri hægt að skapa um þúsund vel launuð störf sem okkur vantar. Í umræðunni um þessar framkvæmdir hættir mönnum til að gera of mikið úr umfangi þeirra.

Nýting orkuauðlindanna skapar okkur stöðuga og verðmæta atvinnugrein til lengri tíma litið. Ég hef alltaf sagt að rekstraráhrifin eru miklu verðmætari fyrir okkur heldur en einhverskonar vítamínsprauta sem framkvæmdin við bygginguna sjálfa veitir." Þorsteinn telur orkuiðnaðinn vera tækifæri sem á að nýta en auðvitað séu mörk fyrir því hve mikið við viljum nýta yfir höfuð. "Við eigum auðvitað að nýta það sem við teljum skynsamlegt, því þetta er verðmæt stoð í atvinnulífinu."

Tækifærin eru víða
Þorsteinn segir mikla grósku vera í tækni- og hugverkagreinum á Íslandi. "Við erum heppin sem þjóð því við erum hugmyndarík og óhrædd við að taka áhættu og óhrædd við að framkvæma. Við förum líka alveg stundum fram úr okkur en við erum allavega óhrædd við að fara af stað. Margt spennandi hefur sprottið upp eftir hrun sem tekur tíma í uppbyggingu en hlúa þarf mjög vel að því. Til þess að fá ný öflug og sterk fyrirtæki þurfum við að gefa þeim tíma. Við megum ekki gleyma okkur í skammtímaátökum og ég er sannfærður um að það muni spretta mjög mörg fyrirtæki upp úr þessari flóru sem verða stór og öflug ef við hlúum vel að."

Þorsteinn segir einnig stórkostlegt að sjá uppganginn í ferðaþjónustunni á síðustu árum og frábært að sjá árangurinn af markaðssetningu á landinu árið um kring. "Nú er þetta miklu kröftugri atvinnugrein að vetri til en áður, vonandi verður framhald á þeirri þróun. Við þurfum síðan að móta okkur langtímastefnu um hvað við viljum fá út úr atvinnugreininni." Þorsteinn segir ferðaþjónustuna vera orðna eina af meginstoðum atvinnulífsins og greinin stefni í að vera mesta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin á Íslandi á þessu ári.

Breytt vinnubrögð í kjarasamningum
Framundan eru kjaraviðræður en flestir samningar á almennum vinnumarkaði renna út í lok nóvember og samningar opinberra aðila skömmu síðar. Þorsteinn segist vera bjartsýnn á að hagstæð niðurstaða náist í viðræðunum. Það sé að verða ríkjandi afstaða að finna verði betri leiðir til að stýra þessum málum en áður.

"Það er alltaf erfitt að sýna ábyrgð og skynsemi í góðæri þegar kaupmáttur og einkaneysla rýkur upp og launaskrið er í gangi. Við megum ekki fara fram úr okkur því þá erum við einungis að byggja undir næsta hrun. Við þurfum að gæta þess að standa í lappirnar þegar betur fer að ára og ég er ekki í nokkrum vafa um að okkur getur vel auðnast að ná skynsamlegri lendingu í kjarasamningum núna. Við þurfum að breyta því hvernig við stöndum að gerð kjarasamninga ef við ætlum að ná árangri til lengri tíma litið. Sú breyting þarf að halda líka á tímum uppsveiflu og þenslu. Við megum ekki missa fótanna eins og hefur gerst áður og reyna síðan að ná skynsamlegri lendingu eftir að í óefni er komið.

Það eru ýmsir þröskuldar sem við þurfum að komast yfir við gerð kjarasamninga. Við erum í mjög hættulegu umhverfi í augnablikinu því mikill þrýstingur hefur skapast á hið opinbera í kjölfar sérstakra samninga við hjúkrunarfræðinga sem gæti smitast yfir á aðrar starfsgreinar hjá hinu opinbera. Sú aðgerð og þeir samningar voru mjög í takti við hinn hefðbundna íslenska óstöðugleika á vinnumarkaði. Svona kjarabætur eða launahækkanir, sem engar innistæður eru fyrir og í engu samhengi við getu til greiðslu eða svigrúm hagkerfisins, eru þar af leiðandi ávísun á áframhaldandi verðbólgu."

Nauðsynlegt að uppfæra menntakerfið
Þorsteinn telur margt í menntakerfinu á Íslandi þarfnast endurskoðunar ásamt því að þurfa að forgangsraða rétt þegar kemur að framlagi hins opinbera til hvers grunn-, framhalds- og háskólanema. "Við höfum lengi talað um aukna þörf fyrir tæknimenntun og erum vissulega að ná árangri, sjáum fleira fólk fara í tæknigreinarnar en áður. Mín skoðun er að samkeppni á þessu sviði hafi aukist t.d. með tilkomu Háskólans í Reykjavík og auknar áherslur þar á tækni- og verkfræðinám. Við sjáum nú talsvert fleiri nemendur sækja í þessar greinar. Skilaboðin þurfa að vera skýr því nemendur velja sér klárlega greinar þar sem þeir sjá góða framtíðarmöguleika. Reglubundin skilaboð til ungs fólks þurfa að vera þau að þarna séu góð tækifæri, góð laun ásamt því að þetta sé alþjóðleg menntun.

Við erum talsvert aftarlega á merinni þegar kemur að háskóla- og tækninámi. Við erum eina landið sem eyðir hlutfallslega minna á hvern háskólanema en grunnskólanema. Við hljótum að þurfa að endurskoða þá forgangsröðun."

Vantar ábyrgð í ríkisfjármálin
Í viðtalinu við Viðskiptablað Morgunblaðsins segir Þorsteinn að arðsemi íslensks atvinnulífs hafi í gegnum tíðina verið lakari en arðsemi sambærilegra greina erlendis, m.a. vegna mikils óstöðugleika og hárra vaxta. "En við verðum að standast erlendum keppinautum snúning í samkeppni og þurfum að hafa sambærilegan stöðugleika í gengi og sambærilegan aðgang að fjármögnun á sambærilegum kjörum," segir hann og tekur fram að markmiðið sé að ná verðbólgunni niður og það sé hægt ef stjórnvöld leggi sitt af mörkum.

"Það þarf að laga þessa sértæku skattlagningu, sem er komin á fjármálageirann og er ekki greidd af neinum öðrum en viðskiptavinum bankanna í formi hærri vaxta. Skattakerfið þarf að færa til sambærilegs horfs og í nágrannalöndunum.

Stærsta málið er að stjórnvöld nái betri tökum á efnahagsmálunum og sýni ábyrgð í ríkisfjármálum og að þegar betur árar verði enn meira aðhald og þannig að ríkið vinni gegn hagsveiflunni en magni hana ekki. Þannig ættum við að ná verðbólgu niður og vaxtakostnaði atvinnulífsins um leið og skapa okkur heilbrigðara umhverfi. Svigrúm ríkisins til fjárfestinga er afskaplega takmarkað við núverandi kringumstæður og ekki hægt að ætlast til þess að ríkið beri þunga í því efni. Treysta þarf því á að atvinnulífið fá svigrúm til fjárfestinga."

Þegar Þorsteinn er spurður hvernig hann sjái Ísland fyrir sér að einhverjum árum liðnum stendur ekki á svari.

"Ég vil sjá kröftugan hagvöxt samhliða stórauknum verðlags- og gengisstöðugleika, sem væri óvenjulegt fyrir okkar efnahagsumhverfi í gegnum tíðina. Þannig auðnist okkur að standa skynsamar að málum á vinnumarkaðinum og í fjármálum hins opinbera. Við verðum orðin samkeppnishæf á alþjóðlega vísu sem atvinnulíf, bæði hvað varðar launastig og samkeppnishæfni. Við verðum laus við gjaldeyrishöft. Ég vil horfa til öflugs og kröftugs atvinnulífs sem skilar okkur aukinni hagsæld og kaupmætti."

Byggt á viðtali Viðskiptablaðs Morgunblaðsins, fimmtudaginn 20. júní. Viðtalið í heild má nálgast rafrænt á vef Morgunblaðsins.