„Ekki tími mikilla hugmyndafræðilegra sigra"

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, flutti fyrr í dag ávarp á ráðstefnu um framkvæmd fjárlaga sem stendur yfir á Hótel Nordica. Steingrímur sagði að nú væri ekki tími mikilla hugmyndafræðilegra sigra á meðan þjóðin vinnur sig út úr því mikla verkefni sem við blasir í ríkisfjármálunum.

Steingrímur sagði  að fjárlagaramminn hafi á stundum verið full teygjanlegur eins og fjáraukalög hafi oft leitt í ljós. Nú megi færa fyrir því sterk rök að mikilvægara sé en nokkru sinni að að fjárlagagerð ríkisins sé trúverðug en trúverðugleikinn sé m.a. kominn undir vilja og getu ríkisstjórnar, ráðuneyta og stofnana til að halda útgjöldum ríkissjóðs innan heimilda fjárlaga. "Harvetna á að gæta aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri. Til að tryggja að markmiðum um lækkun útgjalda verði náð munu stjórnvöld auka áherslu á ábyrgð ráðuneyta og stofnana og auka almennt eftirlit með rekstri."

Steingrímur sagði Alþingi vissulega a sína ábyrgð sem oft hafi látið eftir sér að greiða ákveðnum gæluverkefnum leið. Almennt þurfi að taka fjárlögin fastari tökum. Steingrímur sagði jafnframt að í frumvarpi til fjáraukalaga væru nýir tímar boðaðir - í því felist skýr skilaboð um að taka skuli á rekstrarvanda stofnana. Í frumvarpinu sé almennt ekki um að ræða tillögur um ný verkefni eða aukið umfang að undanskildum aðgerðum til að bregðast við afleiðingum efnahagsáfallsins.

Steingrímur undirstrikaði að ekki væri gert ráð fyrir því að tekið væri á skuldahala stofnana í fjáraukalögum heldur yrði tekið á vanda þeirra með öðrum hætti. "Í frumvarpinu eru heldur ekki fjárveitinga til stofnana eða verkefna sem starfrækt eru með rekstrarhalla, eins og mörg dæmi eru um í fjáraukalögum fyrri ára." Steingrímur sagði að í þessum tilfellum verði byggt á vandlegri greiningu á rekstrarstöðu og ráðstöfunum sem stjórnendur hafi gripið til. Í framhaldi af því verði gert samkomulag milli stofnunar og fagráðuneytis, með aðkomu fjármálaráðuneytis, um nauðsynlegar aðhaldsráðstafanir, úrbætur og aðlögun rekstrar að fjárheimildum. "Almennt gildir að forstöðumaður stofnunar er ábyrgur fyrir því að reksturinn sé innan heimilda fjárlaga."

 "Gert er ráð fyrir að stofnanir ríkisins skili sínu til ráðuneyta útfærðri fjárhagsáætlun um reksturinn á árinu 2010 fyrir lok nóvember. Ráðuneytin nýti desember mánuð til að yfirfæra þær áætlanir og afgreiða fyrir sitt leyti þannig að samþykkt fjárhagsáætlun liggi fyrir áður en fjárlagaárið hefst. Í þessari vinnu er mikilvægt að stofnanir forgangsraði verkefnum sínum og tryggi þannig að þær hafi nægar fjárheimildir til að sinna grunnskyldum og hlutverki sínu," sagði Steingrímur og þakkaði fyrir frumkvæði SA - að efna til ráðstefnu um ríkisfjármálin í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana.

Ráðstefnan Er að marka fjárlög stendur nú yfir, henni lýkur kl. 17 í dag og verður fjallað frekar um efni ráðstefnunnar á vef SA að henni lokinni.