Fréttir - 

16. febrúar 2006

„Ekki sú þjónustutilskipun sem Evrópa þarfnast“

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

„Ekki sú þjónustutilskipun sem Evrópa þarfnast“

Í morgun fór fram atkvæðagreiðsla í Evrópuþinginu um þjónustutilskipun ESB. Tilgangurinn með henni var að gera að veruleika frjálst flæði þjónustu í samræmi við ákvæði stofnsamnings ESB og ryðja úr vegi hindrunum fyrir því að fyrirtæki og einstaklingar geti selt þjónustu sína á innri markaðnum.

Í morgun fór fram atkvæðagreiðsla í Evrópuþinginu um þjónustutilskipun ESB. Tilgangurinn með henni var að gera að veruleika frjálst flæði þjónustu í samræmi við ákvæði stofnsamnings ESB og ryðja úr vegi hindrunum fyrir því að fyrirtæki og einstaklingar geti selt þjónustu sína á innri markaðnum.

Of margar undanþágur

Að mati Evrópusamtaka atvinnulífsins (UNICE) hefur þing ESB með breytingum sínum á tilskipuninni sem samþykktar voru fyrr í dag komið í veg fyrir möguleika hennar til að skapa vöxt og atvinnu í Evrópu. Tilskipunin muni ekki gera það að verkum að veiting þjónustu yfir landamæri verði auðveldari. Of margir þjónustugeirar voru teknir undan gildissviði hennar. Þá verður erfitt að beita reglum staðfesturíkis þess aðila sem veitir þjónustuna vegna fjölda undanþága frá þeirri reglu. Þar að auki er búið að bæta við of víðtækum heimildum fyrir aðildarríkin til að takmarka réttinn til að veita þjónustu á grundvelli margvíslegra ástæðna sem ganga mun lengra en að vera nauðsynlegar í almannaþágu og gætu leitt til verndarstefnu. Þetta mun hafa í för með sér réttaróvissu fyrir bæði fyrirtæki og viðskiptamenn þeirra.

Allt að 800 þúsund störf í húfi

Vinnulöggjöf var tekin undan gildissviði tilskipunarinnar og benda samtökin á að engin þörf hafi verið á því þar sem tilskipun ESB um útsenda starfsmenn tekur nú þegar með fullnægjandi hætti á skilyrðum þess að senda launþega tímabundið til starfa erlendis. Að mati Evrópusamtaka atvinnulífsins er það eina jákvæða sem eftir er í tilskipuninni ákvæði sem snýr að staðfesturéttinum. Að lokinni atkvæðagreiðslunni kom fram hjá Ernest-Antoine Selliére, forseta UNICE, að eftir þessa atkvæðagreiðslu þingsins væri það áfram skylda framkvæmdastjórnar ESB að tryggja raunverulegan innri markað fyrir þjónustu. Markmiðið yrði að vera að ryðja hindunum úr vegi og skapa nýja starfsemi, því í húfi eru 600.000 - 800.000 ný störf.

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru meðal aðildarsamtaka UNICE.

Sjá fréttatilkynningu UNICE.

Samtök atvinnulífsins