Ekki innistæða fyrir rúmlega 25% hækkun flugvallarstarfsmanna

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Fréttablaðið í dag enga efnislega innistæðu fyrir kröfugerð flugvallarstarfsmanna. Þeir krefjist mun meiri hækkunar en samið var um í desember á almenna markaðnum. "Það kemur ekki til greina af okkar hálfu að hverfa frá þeirri línu sem var mörkuð þá," segir hann.

Þorsteinn segir flugvallarstarfsmenn að meðaltali með um hálfa milljón á mánuði. Þeir krefjist 25,6 prósenta hækkunar á mánaðarlaunum, sem myndi þýða 120 til 130 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum á samningstímanum. "Það er ekkert í launaþróun þessa hóps á undanförnum misserum sem kallar á leiðréttingu. Kröfur þeirra eru óásættanlegar." 

Meðalheildarlaun allra þeirra hópa sem umræddir samningar flugvallarstarfsmanna ná til voru rúmlega 509 þúsund árið 2013 þar með talið sumarstarfsfólks. Orlofs- og desemberuppbætur eru ekki innifaldar í þeirri tölu.

Formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) hefur sagt heildarkostnað Isavia á samningstímanum aukast um 18% verði gengið að kröfum stéttarfélaga sem hlut eiga að máli. Þá er eingöngu horft til krafna félaganna um breytingar í launatöflum. Félögin hafa þar að auki gert ýmsar aðrar kröfur því til viðbótar sem myndu auka launakostnað Isavia um rúmlega 25% ef að þeim yrði gengið eins og bent hefur verið á hér á vef SA.

Þorsteinn segir í samtali við Fréttablaðið flugvallarstarfsmenn með góð laun miðað við menntun. Öryggisverðir þurfi til dæmis bara að hafa lokið tveggja vikna námskeiði hjá Isavia. Þá hafi öryggisverðir á flugvöllum fengið 18 prósenta hækkun 2011 á sama tíma og aðrir starfsmenn hafi fengið 11 prósent.

Tengt efni:

Rangfærslur FFR - krefjast að meðaltali 25,6% hækkunar