Ekki hefur verið samið um hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði

Í fréttum af umræðum á ársþingi ASÍ hefur verið fjallað með ónákvæmum hætti um samkomulag um lífeyrismál sem gert var milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í kjarasamningunum 5. maí 2011. Fullyrt hefur verið að SA og ASÍ hafi samið um að hækka iðgjald í lífeyrissjóði úr 11,5% í 15,5% á árunum 2014-2021. Það er ekki rétt. Með samningunum fylgdi hins vegar stefnumarkandi yfirlýsing, sem háð er tilteknum forsendum, og að viðræður um málið eigi eftir að fara fram.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

 "Samningsaðilar eru sammála um að halda áfram vinnu að samræmingu lífeyrisréttinda á vinnumarkaði.  Yfirlýsingu þessari er ætlað að auðvelda sátt um meginþætti lífeyrismála.  Meginmarkmiðið er að allir lífeyrissjóðir á vinnumarkaðnum starfi á sjálfbærum grunni og að lífeyrisréttindi þróist í samræmi við þarfir fyrir ásættanlegan lífeyri.  Á vettvangi samningsaðila verður unnið á þeim forsendum að hækka þurfi iðgjöld til lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði úr 12% í 15,5% á árunum 2014 - 2020.

Í viðræðum samningsaðila verður fjallað um hvernig hækkun iðgjalda verður framkvæmd þ.m.t. áfangaskipting og skipting iðgjalds milli launagreiðenda og starfsmanna á grundvelli samræmingar fyrir vinnumarkaðinn í heild.  Tekið verður tillit til mismunandi launakerfa s.s. á fiskiskipum.

Samningsaðilar stefna á að niðurstaða í þessari vinnu liggi fyrir í árslok 2012 og komi til umræðu vegna endurskoðunar kjarasamninga í ársbyrjun 2013. Yfirlýsing þessi felur í sér umboð til framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins og Samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ að ganga frá útfærslu á hækkun iðgjalda sem tekið geta gildi á árinu 2014."

Forsendur yfirlýsingarinnar eru einkum þær að niðurstaða liggi fyrir um framtíðarskipan lífeyrismála opinberra starfsmanna þannig að sú samræming sem fjallað er um eigi sér fasta viðmiðun. Þessi framtíðarskipan liggur ekki fyrir enn og því eru forsendur viðræðna SA og ASÍ um lífeyrismál í mikilli óvissu og á þessari stundu ekkert hægt að segja um hver hugsanleg niðurstaða þeirra getur orðið.

Þetta kom skýrt fram í ræðu forseta ASÍ á ársþinginu þar sem hann sagði m.a.:

"Verulegur árangur náðist í kjarasamningunum okkar í maí á síðasta ári, þar sem okkur tókst að fá atvinnurekendur til að fallast á að jöfnun lífeyrisréttinda verði upp á við, m.a. með samkomulagi um hækkun framlaga ..."  "Samkomulag þetta er háð þeim fyrirvara af hálfu Samtaka atvinnulífsins, að samkomulag náist milli samtaka opinberra starfsmanna og stjórnvalda um sjálfbærni opinbera lífeyriskerfisins, en slíkt samkomulag liggur ekki fyrir. Á núverandi stundu ríkir því nokkur óvissa um það hvort okkur tekst þetta."

Tengt efni:

Frétt mbl.is