Einkarekstur opinberrar þjónustu þjóðhagslega hagkvæmur

Í nýrri úttekt sem unnin var fyrir sænsku samtök atvinnulífsins (SN) kemur fram að Svíar geti sparað sér allt að 15 milljarða sænskra króna á ári (0,5% af landsframleiðslu), án þess að það komi niður á gæðum eða magni, með því að nýta sér kosti einkarekstrar í opinberri þjónustu. Reynsla Svía af útboðum á opinberri þjónustu hefur til þessa verið góð en árið 2004 greiddu sveitarfélög um 10% af útgjöldum sínum til einkafyrirtækja vegna þjónustuverkefna.

Í úttekt SN kemur fram að ná megi fram miklu hagræði með því að koma á meiri samkeppni um veitingu opinberrar þjónustu, einkum á sviði heilsugæslu og umönnunar aldraðra, barnagæslu og í menntakerfinu. SN áætla að velta opinberrar þjónustu í Svíþjóð sem einkaaðilar geti veitt nemi um 250 milljörðum sænskra króna á ári (10% af landsframleiðslu).

Höfundur úttektarinnar er Henrik Jordahl sem starfar hjá rannsóknarstofnuninni Institutet för Näringslivforskning, en í úttektinni segir að með aukinni samkeppni og auknum einkarekstri í opinberri þjónustu sé hægt að ná fram hagræðingu fyrir bæði ríki og sveitarfélög og bæta jafnframt gæði þeirrar þjónustu sem veitt er - auka valmöguleika fólks og bæta aðgengi að opinberri þjónustu. Sveitarfélög í Svíþjóð hafa nýtt sér kosti einkarekstrar í mismiklum mæli en útboð á opinberri þjónustu hafa verið algengust í Stokkhólmi. Til dæmis má nefna að árið 2004 var 39% af þjónustu heilsugæslunnar veitt af einkaaðilum en í minni sveitarfélögum var hlutfallið nær 10%.

Skýrsla SN: Konkurrensutsättning av offentilig sektor, august 2006 (PDF-skjal).

Vefur Institutet för Näringslivforskning.