Einkarekstur og einfaldara regluverk í orkugeira

Í október kom út skýrsla nefndar sem skipuð var af iðnaðarráðherra og hafði það hlutverk að gera tillögu um hvernig skuli velja milli umsókna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum skv. lögum nr. 57/1998 og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til.  Niðurstaða nefndarinnar er í þrennu lagi:

1) Megintillaga er að Alþingi móti verndar- og nýtingaráætlun til lengri tíma þar sem talin eru upp svæði sem vernduð skuli og þar sem nýta má auðlindir með einhverjum hætti.  Engar breytingar má gera á þessari áætlun nema með samþykki þingsins og er gert ráð fyrir að hún verði endurskoðuð á 4 ára fresti hið minnsta.  Engu skiptir hvort svæðin séu þjóðlendur eða í einkaeigu þótt vissulega sé bent á að huga verði að vernd eignar- og atvinnuréttinda. Ef ekki liggur fyrir niðurstaða um hvort eitthvert svæði/auðlind eigi að nýta eða vernda þá verði það "ósnertanlegt" þar til niðurstaða liggur fyrir. Nefnd á að vinna að þessu verki og á að vera skipuð fulltrúum þingflokka, þriggja ráðuneyta,  fjögurra ríkisstofnana, náttúruverndarsamtaka, Samorku og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

2)  Lagt er til að fasteignareigandi eigi sjálfur að fara með forræði á því hver rannsakar og nýtir auðlindir í eignarlandi hans en einnig gert ráð fyrir eignarnámsheimildum sé þess þörf.  Í þjóðlendum og á ríkisjörðum verði auglýst eftir umsóknum og þær bornar saman eftir fyrirfram skilgreindum aðferðum og tekið gjald fyrir frá hæstbjóðanda.  

3)  Þar til verndar- og nýtingaráætlun liggur fyrir er gert ráð fyrir að unnt sé að veita leyfi þar sem umsóknir liggja fyrir á þröngt afmörkuðum svæðum þar sem umhverfisáhrif eru talin takmörkuð. Í skýrslunni er tekið fram að með þessu "er mögulegri orkunýtingu á næstu árum sniðinn afar þröngur stakkur." Þess vegna er lagt til að Alþingi geti samþykkt frekari leyfi en þó ekki fyrr en að loknum rannsóknum og mati.

Skortir einkarekstur

Óhætt að draga þá ályktun af skýrslu nefndarinnar þótt hún virðist reyndar ekki koma auga á það sjálf að það óefni sem þessi mál eru talin vera komin í stafi fyrst og fremst af því að þau eru nánast eingöngu á forræði hins opinbera. Nánast allar virkjanir í landinu hafa til orðið á vegum fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga. Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að skipa nýja opinbera nefnd og gera nýja áætlun. Það er hins vegar augljóst að það skortir einkarekstur á þessu sviði sem starfar eftir almennum reglum sem settar eru af hinu opinbera. Þannig hefur reynslan sýnt aftur og aftur að þar sem einkaréttur og einkaeign ríkir á auðlindum þá umgangast menn þær af varúð og af skynsemi og með langtímahagsmuni í huga til að geta notið arðs um ókomin ár. Engu á að breyta hvort nýtingin felist í ferðaþjónustu, orkunýtingu eða hvort nýta á land á annan hátt innan gildandi skipulags, friðlýsinga, eða þjóðgarða.   

Ítarlega er fjallað um löggjöf á sviði umhverfismála í skýrslunni og rakin öll þau leyfi sem þarf t.d. til rannsókna og virkjunar jarðvarma í þjóðlendum. Í raun virðist felast í tillögum nefndarinnar að í framtíðinni verði ekki lagt í rannóknir og virkjanir nema með heimild Alþingis og þannig þurfi nánast lagasetningu fyrir hverri einustu nýtingu auðlindar ef frá eru taldar þær "afar þröngu" heimildir sem veittar eru þar til "verndar- og nýtingaráætlun" liggur fyrir sem gert er ráð fyrir að geti orðið árið 2010.  Þá er til þess að taka að ferli það sem þarf að fara í gegnum er þegar orðið afar langt og flókið.  Þannig getur þurft umhverfismat fyrir bæði rannóknir og svo virkjun á tilteknum svæðum. Svo þarf til að koma samþykkt svæðisskipulag, aðalskipulag, og deiliskipulag og í frumvarpi til nýrra skipulagslaga sem er í vinnslu í umhverfisráðuneytinu er gert ráð fyrir að samþykkt verði á Alþingi landsskipulag til 12 ára. Ef um þjóðlendu er að ræða þarf leyfi forsætisráðherra auk virkjanaleyfis, starfsleyfis, tímabundinna starfsleyfa, framkvæmdaleyfis og byggingarleyfis. Verður seint sagt að hið opinbera tryggi ekki góða aðkomu sína og alls almennings að málum þessum. Þannig að ekki er það skortur á samráði eða upplýsingum sem veldur því að menn telja nú nauðsynlegt að gera ferlið enn torsóttara en það hefur verið. 

Meira en fimm ár frá umsókn til rannsóknaborunar

Á nýafstöðnu Orkuþingi var því lýst að það geti tekið meir en fimm ár frá því sótt er um rannsóknarleyfi þar til fyrsta rannsóknarhola er boruð og að til þess að geta metið vinnslugetu jarðhitasvæða þurfi iðulega að koma til rannsóknaboranir. Því var lýst að sömu umsagnaraðilarnir geti fengið sama málið til umfjöllunar oftar en 20 sinnum frá því sótt er um rannsóknarleyfi þar til öll tilskilin leyfi til rekstrar eru veitt.  Það er því mjög brýnt að gera allt þetta ferli einfaldara og gegnsærra en það er nú, fækka leyfum og samræma umsagnarferli.

Gjaldtaka jafngild skattheimtu

Í tillögum nefndarinnar þar sem gert er ráð fyrir að auðlindir verði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum boðnar hæstbjóðanda er alveg skautað fram hjá þeirri staðreynd að allur orkugeirinn á Íslandi er í eigu ríkis og sveitarfélaga.  Öll gjaldtaka fyrir afnot auðlindanna til orkunýtingar sýnist þá jafngilda skattheimtu. Í skýrslu auðlindanefndar frá árinu 2000 er ekki fjallað mikið um gjaldtöku fyrir orkulindirnar heldur sagt að við einkavæðingu orkufyrirtækjanna muni eigendur þeirra fá sanngjarnt gjald fyrir auðlindina.  Sem er þá í raun sama ábending og hér er sett fram: Sala gæða í opinberri eigu til opinberra fyrirtækja í samkeppni er í raun marklaus því þau geta greitt hvaða gjald sem er fyrir gæðin en áhrifin munu koma fram í verðmæti þeirra þegar og ef þau verða seld eða í almennu gjaldi sem innheimt er fyrir þjónustuna. Nú má vera að í tillögum nefndarinnar sé undirliggjandi sá skilningur að einkavæða eigi orkugeirann. Það hefði hins vegar aukið gildi skýrslunnar mikið ef um þetta hefði verið fjallað.

Það hlýtur að vera mikilvægt að ræða um tilgang nýtingar og friðunar og í þessu samhengi fjalla til dæmis um þann ávinning sem nýting orkulindanna hefur í för með sér gagnvart umhverfinu þar sem hún hefur komið í stað nýtingar jarðefnaeldsneytis í stórum stíl. Enginn vafi er um að nýting auðlindanna getur falið í sér drjúgan skerf til áframhaldandi hagvaxtar á landinu og skapað um leið grundvöll að öflugra mennta-, heilbrigðis- og félagsmálakerfi til hagsbóta fyrir landsmenn alla. Mikilvægt er að skýrt sé hvernig skuli með fara ef sjónarmið orkunýtingar og annarar atvinnustarfsemi fara ekki saman. Getur til dæmis ferðaþjónusta fengið svæði í þjóðlendum til afnota hugsanlega í samkeppni við nýtingu orkulindanna og á þá sá að njóta sem hæst býður? Einkarekin ferðaþjónusta í samkeppni við opinberan orkuiðnað?

Fulltrúum einkarekinna fyrirtækja verði hleypt að stefnumótun

Verði farið að tillögu nefndarinnar um að skipuð verði nefnd til að vinna frekar úr skýrslunni og þeim tillögum sem þar er að finna er mjög mikilvægt að þar verði að finna fulltrúa einkarekinna fyrirtækja á samkeppnismarkaði og notenda þeirra gæða sem auðlindirnar skapa.

Atvinnulífið í landinu hefur sýnt að það uppfyllir ströngustu kröfur sem gerðar eru í umhverfismálum, það nýtir auðlindir á ábyrgan hátt og styður sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda þar sem tekið er eðlilegt tillit til annarar landnýtingar og náttúruverndar.