Eimskip fær ICEPRO bikarinn öðru sinni

Aðalfundur ICEPRO, nefndar um rafræn viðskipti var haldinn í dag föstudag á Hótel Sögu. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti ICEPRO bikarinn, sem Eimskip hlaut í ár.  Bikarinn er veittur því fyrirtæki sem þykir hafa skarað fram úr í rafrænum viðskiptum árið 2002.  Er Eimskip eina fyrirtækið sem hefur hlotið þessa viðurkenningu tvisvar en Eimskip fékk ICEPRO bikarinn einnig árið 1999.

Á fundinum sagði Guðbjörg Björnsdóttir frá Staðlaráði Íslands sagði frá verkefni SARIS, samráðs um rafrænt Ísland.  Fjallaði hún um verkefnið  "Ísland sem tilraunasamfélag í rafrænum viðskiptum."  Verið er að vinna að því í samstarfi við aðila í Evrópu að fá styrk frá ESB til að vinna að módeli á þessu sviði.  Hentar Ísland vel í þessu sambandi vegna smæðar sinnar.  Er hugmyndin sú að gera íslenskt samfélag, atvinnulíf og stjórnsýslu að fyrirmynd annarra Evrópuþjóða að því er varðar rafræn viðskipti og rafræn samskipti.