Eftirlit með atvinnustarfsemi – ný skýrsla SA

Kynnt hefur verið skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um kostnað og ábata af svokölluðum eftirlitsiðnaði á Íslandi. Beinn heildarkostnaður fyrirtækja á Íslandi við að framfylgja eftirlitsreglum er talinn nema um 7,2 milljarðar króna á verðlagi ársins 2003. Fram kemur að þetta sé  vafalítið vanmat þar sem ekki var tekið mið af öllum gildandi eftirlitsreglum á öllum sviðum. Óbeinn kostnaður er sá kostnaður sem til fellur vegna áhrifa eftirlitsreglna á framleiðni, nýsköpun, samkeppnishæfni og skilvirkni innan fyrirtækja. Metið var að mögulegt framleiðslutap íslenskra fyrirtækja væri á bilinu 0,4-4 milljarðar króna á verðlagi ársins 2003. Heildarkostnaður íslensks samfélags vegna opinbers eftirlits hafi verið á bilinu 9-12 milljarðar króna á verðlagi ársins 2003. Óbeinn kostnaður er ekki tekin með í þeirri tölu. Skýrslan var unnin að beiðni forsætisráðuneytisins og hana má nálgast á vef ráðuneytisins.

Eftirlit með atvinnustarfsemi - tillögur til úrbóta

Ljóst er að þarna er eftir miklu að slægjast í skyni hagræðingar og gríðarlega mikilvægt að eftirlit með atvinnustarfsemi sé skilvirkt, framkvæmdin samræmd og eins einföld og hægt er. Sú er því miður ekki alltaf raunin og víða er pottur brotinn.

Á aðalfundi sínum þriðjudaginn 4. maí nk. munu Samtök atvinnulífsins kynna nýja skýrslu samtakanna um eftirlit með atvinnustarfsemi þar sem lagðar verða fram tillögur til úrbóta. Tillögur samtakanna eru bæði almenns eðlis og studdar umfjöllun um eftirlitsumhverfi tiltekinna atvinnugreina. Meðal annars er í skýrslunni fjallað um eftirlit með rafverktökum, byggingariðnaði, veitingahúsum, bensínstöðvum, fjármálafyrirtækjum og fiskeldisfyrirtækjum, um matvælaeftirlit og um skipaskoðun. Sjá nánar um aðalfund SA 4. maí.