EES-samningurinn verði ekki vanræktur

Samtök atvinnulífsins hafa skilað utanríkismálanefnd Alþingis umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu (38. mál) og tillögu til þingsályktunar um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu (54. mál). Í umsögn SA segir m.a. að samtökin fagni því að stjórnvöld hyggist hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila um samningsmarkmið fyrir hugsanlegar aðildarviðræður við ESB. Samtök atvinnulífsins vara hins vegar við því að íslensk stjórnvöld glati metnaði sínum um áframhaldandi þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu eins og hafi gerst á undanförnum árum.  Slíkt geti reynst íslensku atvinnulífi dýrkeypt.

Í umsögn SA segir m.a.:

"Samtök atvinnulífsins og forverar þeirra hafa frá upphafi verið fylgjandi samningnum um Evrópska efnahagssvæðið enda hefur hann reynst íslensku efnahagslífi gríðarlega mikilvægur. Markmið samningsins er að tryggja frjálst flæði vöru, þjónustu og fjármagns ásamt frjálsri för fólks. Á undanförnum árum hefur samningurinn tryggt Íslendingum greiðari aðgang, en þó ekki óheftan, að sínum mikilvægustu mörkuðum. Þá hefur hann stuðlað að ýmsum jákvæðum breytingum á lagaumhverfi íslensks atvinnulífs og tryggt okkur þátttöku í ýmsum evrópskum samstarfsverkefnum, t.d. á sviði rannsókna og þróunar, svo og á sviði menntamála. Umsóknarferli um aðild að ESB tekur sinn tíma og þurfa væntingar um það efni að vera raunsæjar. Þjóðin mun því áfram búa við EES-samninginn næstu árin."

Gjaldeyrishöft gegn meginreglum EES
Í umsögn SA er bent á að árangur Íslands sé lakastur allra EES-ríkjanna þrjátíu þegar kemur að innleiðingu gerða. Á þessu verði sem fyrst að verða breyting. Meðal annars hafi verið mjög óeðlilegur seinagangur í innleiðingu nýrrar matvælalöggjafar sem byggi á reglum ESB, en slíkt gæti teflt í tvísýnu aðgangi íslenskra sjávarafurða að Evrópumörkuðum. Þá er bent á að innleiðing á þjónustutilskipun ESB, sem ætlað er að auka frelsi í þjónustuviðskiptum, hafi ekki gengið sem skyldi.

Samtök atvinnulífsins benda jafnframt á að íslensk stjórnvöld hafi neyðst til að víkja tímabundið frá meginreglum EES-samningsins um fjármagnshreyfingar. Slík ráðstöfun megi  ekki vera víðtækari en nauðsyn krefur og augljóst sé að stjórnvöld þurfi að setja fram tímasetta áætlun um að gjaldeyrishöftum verði sem fyrst aflétt og gildissvið þeirra takmarkað á meðan þau eru í gildi. Mikilvægt sé að stjórnvöld haldi áfram fullum metnaði við þátttöku í EES-samningnum.

Gengi krónunnar verði styrkt
Í umsögn SA er því fagnað að samhliða viðræðum um hugsanlega ESB aðild verði reynt af hálfu stjórnvalda að ná fram samstarfi í gjaldmiðilsmálum til þess að styrkja gengi krónunnar. "Innan SA eru þau sjónarmið ríkjandi að sú tilraun, sem staðið hefur frá þeim tíma sem Ísland gerðist aðili að EES-samningnum, með sjálfstæðan, íslenskan gjaldmiðil samhliða frjálsum fjármagnsflutningum, sé fullreynd. Hér á landi skapast ekki samkeppnishæf starfsskilyrði fyrir atvinnulíf með örsmáan, sjálfstæðan gjaldmiðil því vextir verða ávallt hærri en hjá samkeppnisaðilum og óstöðugleiki og verðbólga meiri. Opið hagkerfi, virk samkeppni og sambærilegir vextir og verðlagsþróun og hjá helstu viðskiptaþjóðunum eru nauðsynlegar forsendur fyrir því að íslenskt atvinnulíf vaxi og dafni og lífskjör landsmanna verði í fremstu röð," segir í umsögninni.

Skiptar skoðanir innan SA um ESB
Þá er undirstrikað af hálfu SA að skiptar skoðanir eru innan samtakanna um aðild Íslands að ESB og áréttað að SA muni gæta hagsmuna allra aðildarfélaga á grundvelli þess. Samtök atvinnulífsins séu og verði áfram vettvangur fyrir umræðu um aðild að ESB og ólíkar skoðanir í þeim efnum. Innan SA hafi um langt skeið verið unnið ýmislegt efni sem tengist Evrópusambandinu. Samtökin séu virk í starfi Evrópusamtaka atvinnulífsins, BUSINESSEUROPE í Brussel, sem vinni mjög ötullega að því, að koma sjónarmiðum atvinnulífsins á framfæri við framkvæmdastjórn ESB, Evrópuþingið, ráðherraráð ESB, ESB aðildarríkin 27 og aðrar valdastofnanir í Evrópu.

Umsögn SA frá 15.6. 2009 má nálgast hér