„Daginn sem við losnum við samviskubitið brennum við jakkafötin!”

Á þessum orðum endaði Svafa Grönfeldt nýr rektor HR erindi sitt sem hún hélt á námsstefnunni Virkjum kraft kvenna sem fram fór á hótel Nordica í morgun. Á fimmta hundrað manns fylltu ráðstefnusal hótelsins, hlýddu á fjölbreytt erindi um konur og stjórnun fyrirtækja ásamt því að taka þátt í fjörlegum umræðum. Félag kvenna í atvinnurekstri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Samtök atvinnulífsins stóðu að námsstefnunni.

Mikilvægt hagsmunamál allra

Námsstefnan Virkjum kraft kvenna var bæði opin konum og körlum en konur voru þó í miklum meirihluta í salnum. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setti námsstefnuna og lagði í erindi sínu mikla áherslu á að það væri mikilvægt hagsmunamál allra að kraftur kvenna væri virkjaður, það væri ekkert einkamál kvenna að ræða þessi mál, karlar þyrftu líka að láta til sín taka á þessum vettvangi.

VKK - mynd1

Að markaðssetja eigin auðlindir

Svafa Grönfeldt, nýr rektor Háskólans í Reykjavík hélt frísklegt erindi um mikilvægi þess að vera í forystu og dró upp skemmtilega mynd af því hvaða leiðir fólk geti farið til að skara fram úr og hvernig það geti gert meira en ætlast er til af því. Þegar Svafa spurði salinn álits á því hvort karlar væru betri til forystu fallnir en konur, svaraði salurinn kröftulega einum rómi: Nei! Svafa talaði einnig um mikilvægi þess að markaðssetja sjálfan sig til að ná árangri. "Til að geta markaðssett eigin auðlindir á réttan hátt er mikilvægt að þekkja sjálfan sig, drauma sína og markmið og marka leiðina að þeim."

VKK - mynd 2

Fjörugar og fjölbreyttar umræður

Frísklegar umræður spunnust á námsstefnunnni um konur og karla, stjórnun og stjórnarsetu. Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands, Hafdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lauga Spa, Hrönn Greipsdóttir, hótelstjóri Radisson SAS Hótel Sögu og Steinunn Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Glitnis í London tóku þátt í pallborðsumræðum, m.a. um kynjakvóta en þær sögðust allar mótfallnar slíkum hugmyndum. Í umræðunum kom skýrt fram að með meiri fjölbreytni í atvinnulífinu, jafnari hlut karla og kvenna, myndaðist meiri sköpunarkraftur í þjóðfélaginu og fleiri lausnir yrðu til.

Í umræðum um val í stjórnir tóku þátt Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims, Jafet S. Ólafsson, stjórnarmaður VBS fjárfestingarbanka og Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs HR. Voru þeir á sama máli um að kynjakvótar væru ekki æskilegir í atvinnulífinu - aðrar leiðir væru betur til þess fallnar að greiða konum leið. Það væri jafnframt afar slæmt að nýta ekki helming þjóðarinnar - þann auð sem fólgin er í vel menntuðum konum.

Seta í stjórnum - skyldur og ábyrgð

Hildur Petersen, stjórnarformaður SPRON, Kaffitárs og ÁTVR miðlaði fundarmönnum af mikilli reynslu sinni af stjórnarstörfum og Lilja Dóra Halldórsdóttir lögfræðingur, MBA, aðjúnkt við viðskiptadeild HR,  fjallaði um skyldur og ábyrgð stjórnarmanna í hlutafélögum.

Kynningar ræðumanna má nálgast hér að neðan.

Svafa Grönfeldt.

Lilja Dóra Halldórsdóttir.

Hildur Petersen.

Ávarp Jóns Sigurðssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.