Christoffer Taxell á aðalfundi SA 2012
Christoffer Taxell, fyrrverandi menntamálaráðherra Finnlands og stjórnarformaður Finnair verður meðal ræðumanna á opinni dagskrá aðalfundar Samtaka atvinnulífsins sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 18. apríl. Christoffer hefur víðtæka reynslu úr finnskum stjórnmálum og athafnalífi en hann var formaður erlends sérfræðingahóps sem íslensk stjórnvöld fengu til að gera úttekt á menntakerfi, rannsóknum og nýsköpun í kjölfar bankahrunsins.
Meginskilaboð
hópsins birtust í skýrslu sem skilað var í maí 2009 og voru þau að
tryggja yrði sem best fjármagn til menntunar á öllum stigum,
endurskipuleggja þyrfti mennta- og rannsóknakerfið, leggja áherslu
á nýsköpun og hrinda ákveðnum skipulagsbreytingum hratt í
framkvæmd.
Meðal fjölmargra tillagna má nefna að stefnt skyldi að því að háskólarnir yrðu einungis tveir og aukin áhersla yrði lögð á gæði og árangur. Þá skyldi auka samvinnu við atvinnulífið við að móta áherslur í nýsköpun og að efling nýsköpunar yrði sérstakt forgangsverkefni stjórnvalda.
Sjá nánar:
Education, Research and Innovation policy A new direction for Iceland (PDF)