Efnahagsmál - 

07. Maí 2008

Brýnt að stjórnvöld klári lántöku

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Brýnt að stjórnvöld klári lántöku

Til að koma Íslandi úr því efnahagsumróti sem nú ríkir er brýnt að stjórnvöld fari út á lánsfjármarkaðinn og klári lántöku sem miðar að því að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands, bæta stöðu bankanna og koma þar með Íslandsvélinni af stað aftur. Þetta segir Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Viðskiptablaðið. "Þetta gætu verið um eitt þúsund milljarðar sem þyrftu að koma með þessum hætti inn í kerfið," segir Þór í samtali við blaðið og bætir því við að gangi þetta eftir skapist tækifæri fyrir Seðlabankann til að lækka stýrivexti.

Til að koma Íslandi úr því efnahagsumróti sem nú ríkir er brýnt að stjórnvöld fari út á lánsfjármarkaðinn og klári lántöku sem miðar að því að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands, bæta stöðu bankanna og koma þar með Íslandsvélinni af stað aftur. Þetta segir Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Viðskiptablaðið. "Þetta gætu verið um eitt þúsund milljarðar sem þyrftu að koma með þessum hætti inn í kerfið," segir Þór í samtali við blaðið og bætir því við að gangi þetta eftir skapist tækifæri fyrir Seðlabankann til að lækka stýrivexti.

Í frétt Viðskiptablaðsins segir:

Þór var einn þeirra sem sátu samráðsfund stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í Ráðherrabústaðnum í gær, en þar var staða efnahagsmála rædd. Hann segir að einhugur hafi ríkt um það meginverkefni að koma í veg fyrir að verðbólgan fari á skrið, halda genginu stöðugu og koma á stöðugleika. Engar aðgerðir voru þó kynntar eftir fundinn.

Þór nefnir í samtali við Viðskiptablaðið fleiri aðgerðir heldur en lán stjórnvalda, sem brýnar séu til að koma efnahagslífinu úr því umróti sem ríkt hefur.

"Við þurfum að gæta þess - vegna þess að Íslandsvélin hefur hægt verulega á sér - að unga fólkið lendi ekki í vandræðum með lánin sín." Hann nefnir í því sambandi að stilla þurfi af með opinberum framkvæmdum - á réttum tíma og af meiri krafti - þegar þörf krefur.

Þá segir hann að verkefni aðila vinnumarkaðarins sé að koma í veg fyrir að kjarasamningar leiði til aukinnar verðbólgu. "Mikil ábyrgð hvílir á okkur í þeim efnum - ekki síst hjá opinberum starfsmönnum sem eru með lausa samninga." Að lokum segir hann að fyrirtæki verði að gæta að sér. "Það síðasta sem við þurfum núna eru miklar verðhækkanir," segir hann. "Við verðum öll að taka einhverja skerðingu á okkur."

Sjá einnig í Viðskiptablaðinu 7. maí og á http://www.vb.is/

Samtök atvinnulífsins