Efnahagsmál - 

25. nóvember 2003

Brýnt að samkeppnislög verði endurskoðuð í heild

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Brýnt að samkeppnislög verði endurskoðuð í heild

Samtökum atvinnulífsins hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum. Í frumvarpinu er lagt til að breytingar verði gerðar á 40. gr. laganna sem tekur til húsleitar og að tekið verði upp í lögin nýtt ákvæði um skyldu Samkeppnisstofnunar til að tilkynna ríkissaksóknara ef grunur er um brot á ákvæðum laganna um bann við samkeppnishömlum. Þá er lögð til breyting á refsiákvæðum laganna.

Samtökum atvinnulífsins hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum. Í frumvarpinu er lagt til að breytingar verði gerðar á 40. gr. laganna sem tekur til húsleitar og að tekið verði upp í lögin nýtt ákvæði um skyldu Samkeppnisstofnunar til að tilkynna ríkissaksóknara ef grunur er um brot á ákvæðum laganna um bann við samkeppnishömlum. Þá er lögð til breyting á refsiákvæðum laganna.

Ítarlegar tillögur SA
Samtök atvinnulífsins telja afar mikilvægt að samkeppnislög stuðli að virkri  samkeppni og að hér á landi gildi sambærileg samkeppnisskilyrði og leikreglur eins og annars staðar. Samtökin hafa lagt á það höfuðáherslu að tilgangur samkeppnislaga og samkeppniseftirlits sé að vinna gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu og sjá til þess að opinber afskipti trufli ekki samkeppnisstöðu. Samtökin telja að brýn nauðsyn sé á að samkeppnislögin verði tekin til endurskoðunar og hafa gert ítarlegar tillögur um breytingar á einstökum ákvæðum laganna. Vísast um þær til skýrslu samkeppnislagahóps SA, Samkeppnishæf samkeppnislög, sem gefin var út í maí 2002 og hefur einnig að geyma umfjöllun um íslensk samkeppnislög samanborið við reglur Evrópuréttarins og löggjöf nágrannaríkja. 

Fyrirliggjandi frumvarp tekur aðeins til mjög afmarkaðra þátta og víkur ekki að þeim meginatriðum sem gagnrýni SA beinist að. Það er að hækka þurfi viðmiðunarmörk vegna samráðsbrota (minniháttarreglu 13. gr.) sem gæfi minni aðilum betra færi á að veita stærri aðilum samkeppni og auka með því samkeppni á markaðinum.  Einnig að veltumörk fyrir tilkynningarskyldan samruna fyrirtækja (18. gr.) þurfi að hækka til samræmis við það sem gerist annars staðar. Ekki er heldur vikið að öðrum tillögum sem fram koma í fyrrgreindri skýrslu svo sem að samkeppnisyfirvöld skuli leggja aukna áherslu á leiðbeiningar og fræðslu.

Rétt að bíða heildarendurskoðunar
Í ítarlegri umsögn lýsa SA rökstuddum efasemdum um þær breytingartillögur sem í frumvarpinu eru fólgnar og vísa jafnframt til nefndar sem starfandi er um hluta þeirra. SA telja eðlilegt að bíða niðurstöðu þessarra aðila og hefja jafnframt heildarendurskoðun samkeppnislaga sem tæki til allra fyrrgreindra þátta.

Samtök atvinnulífsins telja því rétt að bíða þeirrar endurskoðunar og grípa ekki nú til breytinga á einstökum ákvæðum laganna. Samtökin mæla því gegn samþykkt frumvarpsins.  

Sjá umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið.

Samtök atvinnulífsins