Brýnt að ná jafnvægi á næsta ári

Þróun atvinnulífsins og efnahagsmála hefur sett mestan svip á starf Samtaka atvinnulífsins á árinu," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Morgunblaðið í dag inntur eftir því hvað hæst hafi borið á árinu. "Rekstur margra fyrirtækja hefur gengið vel. Þau hafa ráðið til sín fólk og kaupmáttur hefur farið vaxandi. Þá hefur atvinnuleysi verið sáralítið. Annað hefur hins vegar ekki gengið jafnvel. Verðbólgan hefur aukist og veldur því fyrst og fremst hækkun íbúðaverðs. Við höfum horft á Seðlabankann hækka vexti án þess að það hefði nokkur áhrif á verðbólguna. Ýmis útflutningsfyrirtæki hafa síðan lent í vandræðum vegna aðgerða bankans. Þótt árið hafi að flestu leyti verið uppgangsár hefur það verið á ýmsan hátt erfitt. Það ber brýna nauðsyn til að ná betra jafnvægi á næsta ári."

Seðlabankinn ráðþrota

Í viðtalinu ræðir Vilhjálmur m.a. um gagnrýni SA á hagstjórnina og hávaxtastefnu Seðlabankans og þann slæma afleik að hækka  lánshlutfall Íbúðalánasjóðs síðasta vetur. "Þessi aðgerð olli því að íbúðaverð hækkaði og verðbólgan jókst. Seðlabankinn greip þá til vaxtahækkana sem leiddu til þess að gengi krónunnar varð óeðlilega hátt um tíma. Síðan ollu ýmsar aðstæður því að gengið sveiflaðist talsvert og gerði það þessar tilraunir Seðlabankans til að hamla gegn verðbólgunni að engu. Það má því segja að aðgerðir bankans hafi verið vita gagnslausar í baráttunni við verðbólgudrauginn.

Við teljum að það hefði dregið úr verðbólgunni hefðu stjórnvöld hagað málum Íbúðalánasjóðs með öðrum hætti. Eftir kjarasamningana frá 22. júní 2006 náðist ákveðið jafnvægi og íbúðaverð hækkaði nær ekkert. Steininn tók algerlega úr þegar ákveðið var fyrr á þessu ári að hækka lánshlutfall sjóðsins í 90%. Þetta voru bein skilaboð um að nú skyldu menn fara að eyða.

Þá hefði það bætt ástandið talsvert að opna vinnumarkaðinn einkum fyrir erlendri sérfræðiþekkingu. Mörg fyrirtæki vilja ráða til sín sérhæft starfsfólk en mega ekki ráða fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta stendur þróun íslenskra fyrirtækja beinlínis fyrir þrifum."

Samningar leiddir til lykta

Um stöðuna framundan og lausa kjarasamninga um áramótin segir Vilhjálmur:  "Þetta var heldur viðameira verkefni en við höfðum vonað og því tókst ekki að ljúka gerð samninganna fyrir jól. En það verður fyrsta verk okkar að leiða samningana til lykta nú fljótlega eftir áramótin.

Okkar helsta markmið er að varðveita þá stöðu sem við höfum og búa til nýjan grunn til að sækja fram. Við munum leggja mikla áherslu á að nota það svigrúm sem atvinnulífið hefur til þess að hækka lágmarkslaunin, færa kauptaxta nær greiddum launum og ná til þeirra sem hafa farið varhluta af launaskriðinu. Þetta viljum við gera með þeim hætti að við náum verðbólgunni sem mest niður."

Sjá nánar í Morgunblaðinu 31. Desember, 2007.