Brýnasta hagsmunamál Íslendinga

Afnám gjaldeyrishafta er brýnasta hagsmunamál Íslendinga. Höftin valda sífellt meiri skaða í atvinnulífinu. Áætlun stjórnvalda um afnám þeirra er ómarkviss og ótrúverðug. Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram trúverðuga áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem gerir ráð fyrir að þau falli niður í árslok.

Stjórnvöld þurfa að horfast í augu við þann möguleika að gengi krónunnar geti fallið eftir að gjaldeyrisviðskipti verða gefin frjáls á nýjan leik. Án þess verður aldrei unnt að ákveða rétta tímann og reynslan hefur sýnt að einstakar aðgerðir verða fálmkenndar þegar ekki liggur fyrir hvenær höftin verða afnumin.

Áætlun Samtaka atvinnulífsins gerir ráð fyrir sérstökum mótvægisaðgerðum til þess að takmarka tjónið af hugsanlegu gengisfalli fyrir skuldug heimili. Gert er ráð fyrir sérstökum vaxtabótum vegna hækkunar verðtryggðra lána umfram viðmiðunarmörk og að þessar bætur verði fjármagnaðar með skattlagningu á fjármagnsviðskipti sem höftin taka nú til, einkum krónueigna erlendra aðila. Skattlagning yrði lægri á viðskipti í aðdraganda afnámsins en hærri eftir að gjaldeyrisviðskipti eru orðin frjáls. Þetta þýðir að hagur allra er að leysa vandann vegna krónueignar erlendra aðila áður en höftin verða formlega afnumin.

Áætlun Samtaka atvinnulífsins gengur út á að skapa skilyrði fyrir viðskiptum milli erlendra krónueigenda annars vegar og innlendra eigenda gjaldeyris, ríkisins og bankanna hins vegar. Fyrir afnám haftanna yrði innlendum eigendum gjaldeyris frjálst að kaupa þessar krónueignir sem væntanlega fengjust með ríflegum afslætti. Ríkið gæfi út skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum á móti krónueignum í skuldaviðurkenningum sem ríkið ábyrgist eða skuldar nú þegar. Bankarnir fengju möguleika til þess að breyta krónuinnstæðum í bundnar gjaldeyrisinnstæður til langs tíma eða samsvarandi skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum. Væntanlega gætu bæði ríkið og bankarnir fengið drjúgan afslátt í þessum viðskiptum.

Þá gerir áætlun Samtaka atvinnulífsins ráð fyrir því að leitað verði samninga við slitastjórnir föllnu bankanna um að eignarhlutir í þeim verði ekki seldir nema a.m.k. 75% af söluverðinu verði greiddir í gjaldeyri og að samið verði við lífeyrissjóðina um að þeir fari sér hægt í fjárfestingum erlendis í tiltekinn tíma eftir afnám gjaldeyrishaftanna.

Gjaldeyrishöftin eru fullkomlega óásættanleg fyrir atvinnulífið. Nútíma alþjóðatengt atvinnulíf þrífst ekki á Íslandi með gjaldeyrishöftum. Umsvif fyrirtækja, sem ekki njóta sérstakra undanþága frá höftunum eru takmörkuð og vöxtur á erlendum mörkuðum hindraður. Aðilar sem geta keypt krónur á vildarkjörum og fjárfest í atvinnulífinu fá sjálfkrafa forskot umfram keppinauta. Framkvæmd haftanna þróast óhjákvæmilega yfir í handstýrt kerfi geðþóttaákvarðana og mismununar.

Gjaldeyrishöftin leiða til lækkandi gengis krónunnar vegna þess að gjaldeyri er varla skipt fyrir krónur nema til þess að greiða innlendan kostnað, afborganir lána eða til eignakaupa. Lækkun gengisins veldur því að verðbólga þessa árs verður væntanlega um og yfir 5% í stað 3% að öðrum kosti. Eðlilegt fjármagnsflæði inn og út úr landinu vegna fjárfestinga eða lántöku er heft. Aðgangur íslensks atvinnulífs að erlendu lánsfé er mjög takmarkaður en hann er lykilþáttur í samkeppni á innlendum fjármagnsmarkaði sem verður mun óhagkvæmari en ella vegna skorts á samkeppni.

Allt ber því að sama brunni. Taka verður áætlun Samtaka atvinnulífsins um afnám gjaldeyrishaftanna alvarlega og hrinda henni í framkvæmd. Það verkefni er á hendi ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Tjónið sem atvinnulífið og samfélagið allt verður fyrir af völdum haftanna eykst stöðugt á meðan þau eru við lýði. Nóg er nú samt. Ríkisstjórnin getur engum kennt um í þessu máli nema sjálfri sér.

Vilhjálmur Egilsson

Af vettvangi í maí 2012 

Tengt efni:

Áætlun SA um afnám gjaldeyrishafta - íslensk útgáfa á vef SA

Áætlun SA um afnám gjaldeyrishafta - ensk útgáfa (PDF)

Opinn fundur SA um afnám gjaldeyrishaftanna - 16. maí á Hótel Nordica