Brýn nauðsyn aðhalds í opinberum fjármálum - ályktun stjórnar SA

Brýn nauðsyn aðhalds í opinberum fjármálum
ályktun stjórnar Samtaka

atvinnulífsins um efnahagsmál


 

Núverandi gengi krónunnar fær ekki staðist til lengdar, en Seðlabankinn spáir því að raungengi hækki um 10% á þessu ári og að samkeppnisstaðan versni sem því nemur. Til mótvægis við stóriðjuframkvæmdir er afar brýnt að skýr aðhaldsstefna í opinberum fjármálum verði mótuð og þurfa stærstu sveitarfélögin einnig að koma að þeirri stefnumótun, til þess að viðhalda stöðugleika og tryggja samkeppnisstöðu atvinnuveganna.


Versnandi samkeppnisstaða atvinnuveganna
Samkeppnisstaða atvinnuveganna hefur farið versnandi undanfarið ár vegna hækkunar gengis krónunnar. Raungengi krónunnar, sem er mælikvarði á samkeppnisstöðu atvinnuveganna, mun hækka um rúm 10% á þessu ári að mati Seðlabankans. Að mati bankans verður raungengið hærra á þessu ári en á árinu 2000 en þá féll gengi krónunnar á markaði þar sem það var ekki talið fá staðist til lengdar.  Núverandi gengi krónunnar fær heldur ekki staðist til lengdar þar sem það samrýmist hvorki jafnvægi í utanríkisviðskiptum né skapar útflutnings- og samkeppnisgreinum eðlilegan rekstrargrundvöll. Það er því brýnt að stjórnvöld geri það sem í þeirra valdi stendur til að sporna gegn þeim kröftum sem ýtt hafa upp gengi krónunnar.

Ný ríkisstjórn leggi fram trúverðuga áætlun til nokkurra ára
Samtök atvinnulífsins taka undir það mat Seðlabankans að eitt mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar sé að tryggja efnahagslegan stöðuleika og halda verðbólgu nálægt markmiði án mikilla þrenginga fyrir útflutningsgreinarnar. Ný ríkisstjórn þarf að  leggja fram trúverðuga áætlun í fjármálum hins opinbera til nokkurra ára sem hefði það að markmiði að mynda mótvægi við stóriðjuframkvæmdirnar beinlínis til þess að sporna gegn of háu gengi krónunnar. Í því skyni þarf Seðlabankinn jafnframt að beita sér af meiri krafti á gjaldeyrismarkaði á meðan innstreymi gjaldeyris er í hámarki. Mikilvægt er að breytingar á skatta- og húsnæðislánakerfi verði vandlega tímasettar í samhengi við áætlun í fjármálum hins opinbera. Afar brýnt er að skýr aðhaldsstefna í opinberum fjármálum verði mótuð og þurfa stærstu sveitarfélögin einnig að koma að þeirri stefnumótun.

Ríkið og stærstu sveitarfélögin nýti allt mögulegt svigrúm til aðhalds
Fjármálastjórn hins opinbera þarf að hafa það að markmiði að draga úr heildareftirspurn á komandi árum. Ný ríkisstjórn og stærstu sveitarfélögin þurfa að nýta allt svigrúm sem mögulegt er til aukins aðhalds með því að fresta framkvæmdum og viðhaldsverkefnum og draga úr vexti rekstrarútgjalda í því skyni að viðhalda stöðugleika og tryggja samkeppnisstöðu atvinnuveganna.

Loks er brýnt að hið opinbera tryggi að launahækkanir í opinberri þjónustu verði ekki meiri en í einkageiranum. Búast má við að umframeftirspurn í ákveðnum greinum tengt stóriðju- og virkjanaframkvæmdum leiði til verðbólguhvetjandi launaskriðs yfir framkvæmdatímann. Við þessu þarf að bregðast með því að greiða fyrir aðgangi erlends starfsfólks með nauðsynlega þekkingu.