Breytingar á skattaumhverfi – áherslur SA

Fjallað var ítarlega um skattaumhverfi fyrirtækja á skattadegi Deloitte, sem haldinn var í samvinnu við Samtök atvinnu-lífsins, Verslunarráð Íslands og Viðskiptablað Morgunblaðsins fjallaði Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, um áherslur samtakanna í skattamálum. Rifjaði hann upp helstu áherslur VSÍ frá árinu 1996 og SA frá árinu 2001 í þessum efnum og skoðaði hvað hefði áunnist frá þeim tíma. Ari sagði þróunina hafa verið afar jákvæða á undanförnum árum og lagði í því sambandi einkum áherslu á afnám eignarskatts, lækkun tekjuskatts fyrirtækja, skynsamlegan fjármagnstekjuskatt, aukinn sveigjanleika í fyrningarreglum og loks lækkun tekjuskatts einstaklinga. Það síðastnefnda sagði Ari vera mikilvægan hluta af heildarstarfsumhverfi fyrirtækja, t.d. í ljósi alþjóðlegrar samkeppni um verðmætt starfsfólk.

Brýnustu verkefnin

Þá fjallaði Ari um brýnustu verkefnin framundan á þessu sviði. Lagði hann í því sambandi áherslu á afnám stimpilgjalds á viðskiptabréf, endurskoðun vörugjalda og virðisaukaskatts og frekari lækkun tekjuskatts fyrirtækja, auk annarra atriða sem ennþá standa útaf úr fyrri áherslum samtakanna (sem snúa m.a. að skattlagningu söluhagnaðar, skattlagningu útsendra starfsmanna o.fl.). Ari rifjaði m.a. upp að í skýrslu um samkeppnishæft skattaumhverfi frá árinu 2001 lögðu SA til að tekjuskattur fyrirtækja yrði lækkaður í 15%. Síðar það ár var hann lækkaður úr 30% í 18%, en á aðalfundi SA í maí 2004 sagðist Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, telja að við ættum að stefna að því að hlutfallið yrði ekki hærra en 15%.

Ari sagði stimpilgjald á önnur skuldabréf en veðskuldabréf nánast óþekkt erlendis. Sagði hann stimpilgjald á útgáfu og viðskipti með viðskiptabréf fela í sér ýmiss konar ójafnræði og skekkja samkeppnisstöðu innlendra fjármálafyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum. Varðandi virðisaukaskattinn sagði Ari SA vilja að öll matvæli yrðu færð í lægra þrep, áður en það yrði lækkað. Fjallaði hann um tilviljanakennda mismunun tegunda í því sambandi og lagði jafnframt áherslu á mikilvægi afnáms séríslenksra vörugjalda.

Sjá glærur Ara.