Breytingar á lífeyriskerfinu í farvatninu

Lífeyriskerfið gæti tekið stakkaskiptum verði hugmyndir nefndar sem fer nú yfir kerfið að veruleika. Þetta kemur fram í umfjöllun fréttastofu Ríkisútvarpsins. Í ársskýrslu SA 2011-2012 er fjallað um verkefni nefndarinnar en í ársbyrjun 2010 var skipuð nefnd aðila almenna og opinbera vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem fékk það verkefni samkvæmt erindisbréfi fjármálaráðherra að fara yfir kosti og galla núverandi fyrirkomulags og safna saman hugmyndum og koma með tillögur um framtíðarskipan lífeyrismála.

Nefndin hittist reglulega árið 2010 en starf hennar lá að mestu niðri árið 2011, vegna ósættis milli fulltrúa almenna markaðarins og heildarsamtaka opinberra starfsmanna, en var tekið upp á ný í febrúar á þessu ári. Í hnotskurn snérist ágreiningurinn um það hvað fælist í áunnum lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, en ASÍ og SA hafa lagt áherslu á að skuldaaukning lífeyrissjóða opinberra starfsmanna verði stöðvuð með því að inngreiðslum í A- og B-deildir LSR og sveitarfélaga verði hætt og iðgjöld greiðist í nýja deild sem verði rekin á sambærilegum grunni og á almennum vinnumarkaði. Þeir sem hafi greitt í sjóðina haldi þeim réttindum. Samstaða hefur verið um að núverandi tvískipting milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins sé skaðleg.

Með kjarasamningi SA og ASÍ þann 5. maí 2011 fylgdi yfirlýsing um lífeyrismál. Í henni sagði að áfram yrði unnið að samræmingu lífeyrisréttinda á vinnumarkaði og stuðlað að sátt um meginþætti lífeyrismála. Meginmarkmiðið sé að allir lífeyrissjóðir á vinnumarkaðnum starfi á sjálfbærum grunni og að lífeyrisréttindi þróist í samræmi við þarfir fyrir ásættanlegan lífeyri. Á vettvangi samningsaðila verði unnið á þeim forsendum að hækka þurfi iðgjöld til lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði úr 12% í 15,5% á árunum 2014-2020.

Samkvæmt yfirlýsingunni er stefnt að niðurstöðu fyrir í árslok 2012 og komi hún til umræðu vegna mats á forsendum kjarasamninga í ársbyrjun 2013. Yfirlýsing fól í sér umboð til framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins og Samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ að ganga frá útfærslu á hækkun iðgjalda sem tekið gætu gildi á árinu 2014.


Ljóst er að breytingin á lífeyriskerfinu mun taka tíma. Fyrirtæki hækka ekki framlag til sjóðanna á einu bretti - slíkt verði ekki gert nema í áföngum og í tengslum við gerð kjarasamninga. Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hins vegar æskilegt að lífeyriskerfi á almenna og opinbera vinnumarkaðnum verði sambærileg.

Sjá nánar:

Ársskýrsla SA 2011-2012 (umfjöllun um lífeyrismál á bls. 24-25)

Frétt RÚV 16.8. 2012 - smelltu til að horfa