Brettum upp ermar - gefum blóð

Samtök atvinnulífsins og Blóðbankinn hófu í dag sameiginlegt átak undir yfirskriftinni Brettum upp ermar - gefum blóð. Samstarf Blóðbankans og SA er liður í því að fjölga blóðgjöfum sem koma reglubundið í Blóðbankann. Það er mikilvægt fyrir Blóðbankann og blóðgjafa að þeir komist frá vinnu til að gefa blóð en SA hvetja atvinnurekendur til að auðvelda starfsfólki að gefa blóð á vinnutíma. Það tekur aðeins stutta stund og getur bjargað mannslífum.

Fyrirtækin Marel, Já og Rio Tinto Alcan á Íslandi styðja átak Blóðbankans og SA. Forstjórar fyrirtækjanna sýna gott fordæmi með því að hvetja starfsfólk sitt til blóðgjafar á vinnutíma.

Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, skrifuðu undir samstarfssamning um átakið í Marel í dag. Viðstödd voru Margrét Oddsdóttir forstjóri Já, Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, Sigsteinn P. Grétarsson aðstoðarforstjóri Marel og Skúli Eggert Sigurz, framkvæmdastjóri lögfræðistofunnar Lagastoðar. Hann lenti í alvarlegu slysi fyrir nokkru og naut blóðgjafar í kjölfarið. Skúli Eggert styður átakið.
 

Smelltu á myndina til að stækka

Mynd: Óskar Páll Sveinsson


Að aflokinni undirskrift hófst söfnun blóðs meðal starfsmanna Marel í Blóðbankabílnum sem mætti á staðinn en hann heimsækir reglulega fyrirtæki þar sem blóðgjafar eru margir. Blóðbankinn þarf að fá um um 2.000 nýja blóðgjafa á ári til að viðhalda blóðgjafahópnum. Blóðgjafahópurinn er um 9.000 manns sem koma um 14.000 sinnum á ári Að meðaltali þarf Blóðbankinn því 70 blóðgjafa alla opnunardaga.

Smelltu á myndina til að stækka

Mynd: Óskar Páll Sveinsson  

Blóðbankinn er staðsettur við Snorrabraut í Reykjavík og er með starfstöð á Akureyri auk þess sem Blóðbankabíllinn er á ferðinni um allt land. Nú er mögulegt að bóka tíma í blóðgjöf og mun Blóðbankinn í auknum mæli óska eftir að blóðgjafar geri það. Með því móti má stytta biðtíma og ná betra jafnvægi í innkomu blóðgjafa, lagerhaldi og mönnun.

Umfjöllun fjölmiðla:

mbl - Sjónvarp - frétt 1

mbl - Sjónvarp - frétt 2 

VB - Sjónvarp

Fréttastofa Stöðvar 2

Fréttastofa RÚV

Tengt efni:

Vefur Blóðbankans

Hvatningarauglýsingar SA og Blóðbankans (PDF)

Auglýsingar SA og Blóðbankans