Bréf SA til forsætis- og fjármálaráðherra: Aukin skattheimta felur í sér uppgjöf

Samtök atvinnulífsins mótmæla áformum um skattahækkanir á stóriðju, sjávarútveg og banka vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2012. Samtök atvinnulífsins telja áformin afar misráðin og benda á að allt kapp verði að leggja á að auka fjárfestingar og hagvöxt eins og stefnt var að við gerð kjarasamninga og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí sl.

Þetta kemur fram í upphafi bréfs Samtaka atvinnulífsins til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra en lesa má bréfið í heild á vef SA.

Undir bréf SA rita Vilmundur Jósefsson, formaður SA og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA en í því segir ennfremur:

Samtök atvinnulífsins vekja athygli á því að skattheimta er mikil á Íslandi og er landið í fjórða til fimmta efsta sæti í heiminum þegar skoðað er hlutfall skatttekna af landsframleiðslu og tekið tillit til mismunandi fyrirkomulags lífeyrismála. Þetta kom m.a. fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um skattamál á Íslandi í júní 2010. Skattheimta er því komin á ystu mörk að mati Samtaka atvinnulífsins og engin efni til að hækka skatta frekar en orðið er.

Þau áform sem kynnt hafa verið um skattahækkanir bera þess merki að ákveðin uppgjöf hafi orðið við að ná endum saman í ríkisbúskapnum. Ekki virðist vilji til að fylgja eftir markmiðum um auknar fjárfestingar, minna atvinnuleysi og meiri hagvöxt sem gæti skilað ríkissjóði sjálfkrafa auknum skatttekjum. Aðeins virðist nást samstaða um vanhugsaðar aðgerðir gegn stóriðju, sjávarútvegi og bönkum.

Skattamál stóriðju voru til umfjöllunar haustið 2009 og þann 7. desember það ár undirrituðu fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra sameiginlega yfirlýsingu með Samtökum atvinnulífsins og stóriðjufyrirtækjunum þar sem gert var samkomulag um fyrirkomulag skattlagningar á þessi fyrirtæki á árunum 2010 - 2012. Með því samkomulagi voru aðrar hugmyndir um skattlagningu á fyrirtækin lögð á hilluna en sammælst um að frá og með árinu 2013 þegar stóriðjan verður hluti af ETS yrði fyrirtækjunum búin sambærileg samkeppnisskilyrði og stóriðjufyrirtækjum í sama iðnaði í Evrópusambandinu. Áform um nýja skatta á stóriðju á árinu 2012 eru algjörlega á skjön við þetta samkomulag sem ítrekað var í bréfi frá fjármálaráðuneytinu þann 15. júní 2010 að gilda myndi út 2012.  Sífelldur viðsnúningur í skattamálum stóriðjunnar og viðleitni til vanefnda á fjárfestingarsamningum og samningum við atvinnulífið veldur tortryggni hjá erlendum fjárfestum í garð íslenskra stjórnvalda og efasemdum um nægan pólitískan stöðugleika í landinu.

Skattamál útgerðarinnar voru til umfjöllunar sl. vetur þegar frumvörp til laga um stjórn fiskveiða voru til meðferðar. Þau frumvörp ollu miklum deilum við sjávarútveginn, samtök hans og Samtök atvinnulífsins enda hefði samþykkt þeirra valdið stórkostlegu tjóni á sjávarútvegsfyrirtækjum og fjölmörgum fyrirtækjum í öðrum atvinnugreinum. Samtök atvinnulífsins telja skynsamlegast að frekari áform um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða verði lögð á hilluna og leggja til að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir friðmælist þess í stað við sjávarútveginn en fari ekki sífellt gegn þessari mikilvægu atvinnugrein með ófriði. Alþingi hefur þegar samþykkt hækkun veiðigjalds og engin ástæða til þess að ganga harðar fram að þessu leyti.  Áframhaldandi óvissa um löggjöfina um stjórn fiskveiða kemur í veg fyrir fjárfestingar og nauðsynlega uppbyggingu og endurnýjun í sjávarútvegi.

Samtök atvinnulífsins vara eindregið við frekari skattlagningu á íslensk fjármálafyrirtæki enda hlýtur kostnaðurinn af þeirri skattheimtu að lenda alfarið á viðskiptavinum þeirra. Sá hagnaður sem nú myndast í starfsemi fjármálafyrirtækjanna kemur að stórum hluta til vegna minni afskrifta en reiknað var með í kjölfar hrunsins en síður frá eiginlegum rekstri. Þegar endurskipulagningu á fjárhag atvinnulífs og heimila lýkur þurfa fjármálafyrirtækin væntanlega að hagræða í rekstri sínum til þess að ná ásættanlegri arðsemi og öll kostnaðaraukning sem hærri skattar valda munu þess vegna lenda á viðskiptavinunum. Þótt fjármálafyrirtæki komi til með að greiða skattana verða það fyrst og fremst skuldug fyrirtæki og heimili sem munu bera þá.

Samtök atvinnulífsins leggjast því eindregið gegn áformum ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir. Samtökin vekja athygli á því að ekkert hefur orðið úr veigamiklum áformum um fjárfestingar í samgöngumannvirkjum þrátt fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana í apríl sl. Samtökin hvetja eindregið til þess að öllum tilrækum ráðum sé beitt til þess að koma fjárfestingum í gang og auka hagvöxt. Árið 2011 er að líða án þess að atvinnulífið komist í alvöru á skrið og líkurnar á því að stöðnunin haldi áfram árið 2012 vaxa eftir því sem vikurnar líða hver af annarri með kyrrstöðu í fjárfestingum í atvinnulífi og innviðum samfélagsins. Aukin skattheimta felur í sér uppgjöf gagnvart því verkefni að efla atvinnulífið, ná niður atvinnuleysinu og bæta lífskjör þjóðarinnar til frambúðar.

Virðingarfyllst,

                                                     

Vilmundur Jósefsson, formaður SA og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Sjá nánar:

Bréf SA til forsætisráðherra og fjármálaráðherra (PDF)