Boltinn er hjá stjórnvöldum

Samtök atvinnulífsins hafa greint ríkisstjórninni frá því að ekki verði hafin lokaatlaga að því að ljúka kjarasamningum í vikunni eins og til stóð. Svo mörg stór mál standi út af í viðræðum við ríkisstjórnina að slíkt sé ekki mögulegt. "Við höfum viljað vera þátttakendur í því, með ASÍ og ríkisstjórninni, að reyna að klára samningamálin í vikunni og hefja lokalotuna á miðvikudag. Staðan er hins vegar sú að það er svo margt sem stendur út af, gagnvart ríkisstjórninni, svo mörg stór mál, að við sjáum okkur alls ekki fært að gera það," segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA, í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.

Vilmndur segir þetta ákvörðun SA en samtökin vilji nú leggja áherslu á að fá ýmislegt fram í dagsljósið, sem enn sé á huldu. Framkvæmdapakkinn svonefndi, á vegum ríkisstjórnarinnar, sé afar rýr að innihaldi og ekkert sem hönd sé á festandi varðandi hann. Þá hafi ekki tekist að koma á neinni efnislegri umræðu við ríkistjórnina um framtíð fiskveiðistjórnunar, lífeyrisréttindi landsmanna eða skattamál fyrirtækja.

Formaður SA segir í samtali við Fréttablaðið í dag boltann vera hjá stjórnvöldum.

Fréttastofa RÚV ræddi einnig við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, í morgun um stöðuna. Þar segir hann ljóst að fyrirtækin í landinu verði að fá skýrari mynd af því rekstrarumhverfi sem bíði þeirra næstu misserin áður en hægt sé að ganga frá kjarasamningum til þriggja ára.

Sjá nánar:

Umfjöllun Morgunblaðsins á mbl.is

Umfjöllun Fréttablaðsins - vefútgáfa

Hlusta á frétt RÚV

Samtök atvinnulífsins hafa sett fram sýn SA á leiðina út úr kreppunni undir merkjum atvinnuleiðarinnar. Í henni felst aukin fjárfesting í stórum fyrirtækjum sem smáum, sköpun nýrra starfa, minna atvinnuleysi og betri lífskjör.

Atvinnuleiðin - ályktun stjórnar SA 1. febrúar 2011

Atvinnuleiðin - gögn frá kynningarfundi SA